„Konum er að fjölga í sjávarútvegi, sem er virkilega jákvætt,“ segir Agnes Guðmundsdóttir, formaður félagsins, „og það er líka skemmtilegt að sjá að það er í öllum starfsgreinum innan sjávarútvegsins nema meðal æðstu stjórnenda, þar er lítil sem engin breyting. Okkur hefur miðað áfram en það er mikið verk fyrir höndum.“

Í gær voru birtar niðurstöður nýrrar könnunar á stöðu kvenna í sjávarútvegi, sem félagið lét gera og fékk til verksins Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Fimm ár eru liðin frá því félagið lét síðast gera könnun á stöðu kvenna í íslenskum sjávarútvegi og Agnes segir fróðlegt að bera saman niðurstöðurnar þá og nú.

„Við teljum gífurlega mikilvægt að fylgjast með því hvernig þróun hefur verið á stöðu kvenna í greininni,og vera með góð gögn þar að baki svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir“ segir Agnes.

Hún segir áhugavert að sjá hve konum hefur fjölgað í hópi tækni- og sérmenntaðs starfsfólks, og einnig hjá iðnaðar- og iðnverkafólki.

„Verra er þó að meðal æðstu stjórnenda hefur lítil sem engin hreyfing orðið,“ segir hún. „En meðal framkvæmdastjóra, millistjórnenda og sérfræðinga, þar var jákvæð þróun. Við sjáum reyndar líka að störfum er að fjölga almennt í greininni, og körlunum er líka að fjölga. Körlum er raunar hvergi að fækka nema meðal framkvæmdastjóra.“

Gaman var að sjá tölur um hlutfall kvenna á vinnustöðum þar sem engin kona var, fór úr 27% árið 2016 og er núna komið niður í 12%.

Fjölbreytnin mikilvæg

Hún segir aukna fjölbreytni í sjávarútvegi mikilvæga, ekki síst fyrir fyrirtækin sjálf og framtíðarhagvöxt greinarinnar.

„Það fylgir því meiri nýsköpun og fleiri tækifæri og konur eru að grípa þau tækifæri og sækja inn í greinina meira. Það er það sem félagið Konur í sjávarútvegi snýst allt um, að efla tengslanetið til að styðja við konur, gera þær sýnilegri, auka þekkingu þeirra og fá fleiri inn í greinina. Vera með öflugar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir“

Þrátt fyrir að þokist í rétta átt segir Agnes þetta óneitanlega ganga „mjög hægt. Það eru ekki stórar breytingar sem hafa orðið á fimm árum. Það þarf að spýta í lófana og fyrirtæki þurfa að taka ákvörðun hvert þau ætli að stefna. Því það hlýtur að gefa auga leið að fjölbreytt flóra af fólki endurspeglar betur samfélagið sem við búum í og jafnframt byggir upp bestu mögulegu þekkinguna og verðmætasköpun þar af leiðandi.“

Hún bendir líka á að samkvæmt lögum eiga fyrirtæki að vera með jafnréttisáætlun þegar starfsmenn eru fleiri en 25, en 45% fyrirtækja með 20 til 100 starfsmenn voru ekki með jafnréttisáætlun. Einnig vantar víða upp á lögbundin hlutföll í stjórnum. Heilt yfir er þróunin í rétta átt en sýnir jafnframt á mikilvægi vettvangs eins og Félag kvenna í sjávarútvegi.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á opnum fundi sem félagið Konur í sjávarútvegi efndi til í höfuðstöðvum Íslandsbanka í gærmorgun.

Þar fluttu erindi auk Agnesar þau Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marels og Kjartan Smári Höskuldsson framkvæmdastjóri Íslandssjóða. Á eftir tóku þátt í pallborðsumræðum þau Ásta Dís Óladóttir dósent við Háskóla Íslands, Erla Ósk Pétursdóttir framkvæmdastjóri Marine Collagen, Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss og Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims.