Jóhanna Gísladóttir GK hefur verið á túnfiskveiðum undanfarnar vikur og var kominn með sex fiska í öðrum túrnum í gær. 11 túnfiskum var landað eftir fyrsta túrinn.

Ólafur Óskarsson skipstjóri sagði aðstæður hafa breyst í hafinu frá því í fyrsta túrnum. Kominn var kaldi og ætisaðstæður breyst. Hann sagði mun rólegra yfir veiðunum núna.

Sala á túnfiski úr fyrsta túrnum gekk ágætlega þrátt fyrir að marga frídaga hafi einmitt borið upp á þessum tíma í Japan. Menn voru sáttir við verðið sem fékkst með tilliti til þess að fiskurinn var ekki sérlega feitur.

Sjá nánar í Fiskifréttum í dag.