Sæbýli í Grindavík, sem elur sæeyru til manneldis, missti nálægt 300 þúsund ungviði vegna rafmagnsbilana í upphafi jarðhræringanna í nóvember á síðasta ári og nú er staðan sú eftir síðustu atburði að óvissan ein ríkir. Eldi á klakdýrum er í húsi á Ægisgötu nærri höfninni og þar er engin starfsemi leyfð frekar en annars staðar í bænum. Þó hefur fengist leyfi til að halda varaaflstöðvum fyrirtækisins gangandi þannig að ekki hefur komið til frekari affalla á klakstofninum.

Klakdýrin sem drápust í nóvember hefðu komið til slátrunar eftir þrjú ár og tjónið er því talsvert. Það urðu minniháttar skemmdir á húsnæði en það ásamt tjóni vegna affalla er í meðhöndlun trygginga. Ný staða í Grindavík setur þó áform Sæbýlis um áframhaldandi uppbyggingu ungviðastöðvarinnar í Grindavík sem og fyrirhugaða uppbyggingu áframeldis í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi, í uppnám.

Engin viðbótarafföll

„Í raun vorum við heppin hvern[1]ig bæjaryfirvöld, starfsfólk og umhverfið sjálft stuðlaði að því að fyrirtækið komst tiltölulega áfallalítið í gegnum þessar hræringar í nóvember og desember. En staðan er náttúrulega allt önnur í dag. Eftir atburðina síðustu fór af hiti og rafmagn en við höfum náð að bjarga okkur á varaaflstöðinni okkar. Við höfum því ekki orðið fyrir neinum viðbótar afföllum. Við fáum bara rétt að sinna lágmarksþörf og á meðan er engin uppbygging að eiga sér stað, hvorki ungviðaframleiðsla né lífmassaaukning í eldisstöðinni,“ segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis.

Starfsmenn hafa fengið undanþáguleyfi til að sinna lifandi dýrum í eldisstöðinni í Grindavík og að fara inn í húsnæðið til að setja olíu á varaaflstöðvar í stuttan tíma þegar ástandið er metið öruggt af aðgerðarstjórn.

Sæbýli. F.v. Ásgeir Guðnason, Sigurður Pétursson, Arnþór Gústavsson, Vala Valþórsdóttir, Sigurður Markússon, Örn Smárason og Sigtryggur Klemensson.
Sæbýli. F.v. Ásgeir Guðnason, Sigurður Pétursson, Arnþór Gústavsson, Vala Valþórsdóttir, Sigurður Markússon, Örn Smárason og Sigtryggur Klemensson.

Áttu þrjú ár eftir í slátrun

Sigurður segir að rafmagnsbilanir í byrjun hræringanna hafi valdið því að einn hópur af yngstu eldisdýrunum, sem viðkvæmastur er, hafi drepist. Þetta hafi verið um 300 þúsund dýr. Þetta sé auðvitað tjón en líklega verði það bætt af tryggingum. Þessi hópur eldisdýra hafi átt þrjú ár í slátrun. „Núna eru við allavega komin í var með klakstofninn og hluta af öðrum árgöngum í bráðabirgða aðstöðu í gámum á eldissvæði sem fyrirtækið er með staðsett við hlið Stolt Seafarm í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Það gefur okkur grunn til þess að viðhalda áratuga vinnu sem hefur átt sér stað í uppbyggingu klakstofns á einni verðmætustu eldisafurð í heimi. Við munum þó líkt og aðrir sem búa og reka starfsemi í Grindavík meta stöðu okkar eftir því hvernig fram vindur með tryggingamál og aðstoð stjórnvalda til þess að halda okkar uppbyggingu áfram. Ljóst er að stjórnvöld verða að stíga inn af fullum þunga og koma með raunhæfar aðgerðir til að hjálpa fyrirtækjum á svæðinu,“ segir Sigurður.

igurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis. FF MYND/GUGU
igurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis. FF MYND/GUGU

Neyðaráætlun virkjuð

„Eldi af þessu tagi byggir á framtíðarplönum og það þarf að marka skýra framtíðarsýn til að geta staðið að slíkri uppbyggingu. Þegar Grindavík var rýmd 10. nóvember síðastliðinn virkjuðum við neyðaráætlun sem meðal annars byggir á því að flytja hluta af okkar klakstofn og er hann nú í Rannsóknasetrinu í Sandgerði og á fyrirhuguðu viðbótareldissvæði félagsins á Reykjanesi,“ segir Sigurður.

Eitt þúsund tonna áframeldi

Sæbýli stefndi að því að hefja framkvæmdir á byggingu áframeldishúsnæðis í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi sem að óbreyttu hefði ekki þurft að hefja starfsemi fyrr en eftir tvö ár. Þar stóð til að hafa áframeldi í lóðréttum eldiskerfum þar sem í fyrsta áfanga var stefnt að 200 tonnum. Nú eru þessi áform háð óvissu með stöðunni í ungviðaeldisstöð í Grindavík og nýtingu þess húsnæðis. Fyrirtækið er með á aðra milljón dýra í eldi og um verðmæta afurð er að ræða. Mest af því er ungviði sem kemur til slátrunar eftir þrjú ár. Kílóið af sæeyrum frá Sæbýli kostar um 10 þúsund krónur. Miðað við kílóverð á sæeyrum má áætla að 1.000 tonna ársframleiðsla geti skilað allt að 10 milljörðum króna í útflutningsverðmætum. Sæbýli er í eigu Ásgeirs Eiríks Guðnasonar, stofnanda fyrirtækisins, Eyris Invest og fleiri fjárfesta.