Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson fundu lítið af loðnu í aukaleiðangri kostuðum af útgerðinni.

„Það er ekki búið að vinna úr öllum niðurstöðum leiðangursins en ég get sagt að útkoma mælinganna var að það er lítið af loðnu komið inn á svæðið enn sem komið er,“ sagði Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.

Skipin náðu engu að síður einni yfirferð yfir svæðið fyrir norðan og norðvestan land eins og stefnt var að.

„Við gerum því ráð fyrir að loðnan sé ekki gengin að norðan nema að litlu leyti og sé að finna undir ísnum, sem takmarkaði fyrirhugað yfirferðasvæði lítillega. Við sjáum því ekki ástæðu til að nota niðurstöður mælinganna til endurskoða veiðiráðgjöfina fyrir komandi vertíð.“

Ekkert fannst fyrir austan

Beitir NK, uppsjávarskip Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, var fengið til aðstoðar við leitina. Hlutverk Beitis var að skanna svæðið fyrir austan land, en Sturla Þórðarson skipstjóri segir að engin loðna hafi fundist þar.

„Við fundum enga loðnu fyrr en við vorum komnir að Kolbeinseyjarhrygg,“ segir Sturla.

Beitir hélt engu að síður á loðnuveiðar í framhaldi af leiðangrinum og kom að landi í Neskaupstað á þriðjudag með um 1230 tonn af loðnu, sem fengust í fimm holum austan við Kolbeinseyjarhrygg.

Víkingur AK var á veiðum á svipuðum slóðum og landaði aflanum á Vopnafirði.

„Þetta er bara mjög góð loðna, 39-40 kílóið,“ segir Sturla.

Komnir í jólafrí

Áhöfnin á Beiti er þá komin í jólafrí, enda allar veiðiheimildir uppurnar að sögn Sturlu.

„Ég reikna svo með að verði farið á kolmunna strax eftir áramót.“

Beitir hefur annars verið mest á kolmunna og síld það sem af er fiskveiðiárinu.

„Jú, við fórum í einn kolmunnatúr niður við Færeyjar nú um daginn. Það var verið að taka restina.“

Síldveiðarnar hafa einnig gengið vel á Beiti, en Sturla segist reikna með því að beðið verði með frekari loðnuveiði þangað til staðan skýrist.

Hafrannsóknastofnun fer næst í hefðbundna loðnuleið væntanlega þegar líða tekur á janúar.