Í grein sem birtist nýlega í tímaritinu International Journal of Gastronomy and Food Science, og ber heitir „þörunga-kombucha: Athugun á nýsköpun úr íslenskum sjávarauðlindum“ kemur fram að kombucha-framleiðsla hefur þróast í arðbæran iðnað víðsvegar í veröldinni. Þó svo að kombucha markaðurinn á Íslandi sé enn á byrjunarstigi sýnir rannsókn, sem sagt er frá í greininni að þróun framleiðsla á kombucha með þörungum er raunhæfur möguleiki á Íslandi.

Á Wikipedia segir að kombucha sé gerjaður og sykraður svartur tedrykkur. Um er að ræða góðgerla sem geta stuðlað að heilsusamlegri gerlaflóru í meltingarveginum.

Kombucha gerlar.
Kombucha gerlar.

Í umfjöllun á vef Hafrannsóknastofnunar segir að þrátt fyrir að kombucha-ferlar séu vel skilgreindir þarf að aðlaga þá þegar þörungar eru notaðir hvort sem þeir eru notaðir sem bragðefni eða innihaldsefni. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar á hagkvæmni framleiðslunnar fyrir innlendan og alþjóðlega markaði og einnig á áhrifum árstíðabundinna breytinga á bragð og næringargæði þörunganna. Þessi frumrannsókn benti til að þörunga-kombucha framleiðsla fyrir innlendan markað gæti verið framkvæmanleg bæði þegar litið er til öryggis og viðskiptamöguleika.

Lágt þungmálma- og joðinnihald

Í greininni er skýrt frá niðurstöðum um viðhorf íslenskra neytenda til þörunga-kombucha. Niðurstöður bragðtilrauna sýndu að þekking á kombucha er lítil og að það var ekki marktækur munur á upplifun fólks milli kombucha með eða án þörunga. Í könnuninni var einnig safnað upplýsingum fyrir frumkvöðla og vísindamenn framtíðarinnar varðandi skynjun á gosdrykkjum, heilsudrykkjum og matvörum með þörungum almennt.

Þungmálma- og joðinnihald er lágt í þörunga-kombucha sem er jákvæt með tilliti til mengunar eða neikvæðra áhrifa á heilsu. Rannsóknin sýndi hins vegar að almennt er enn frekari rannsókna er þörf fyrir notkun þörunga í matvælum sérstaklega með tilliti til styrks arsens, kadmís og joðs, einkum í beltisþara. Ennfremur þarf að staðla reglur um öryggi matvæla áður en hægt er að samþætta þörungaafurðir að fullu á íslenskan markað. Greinina má finna hér.