„Það er eins og einhver stjórnmálamaður hafi stjórnað þessu og sett þetta á hausinn,“ segir Óskar Þór Kristjánsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur VE, um óvenju lélegar gæftir á Selvogsbanka í vetur. Nafni hans úr Eyjum, Óskar P. Friðriksson, skaust með í einn túr í apríl og myndaði lífið um borð.
Mánudagskvöldið 22. apríl síðastliðinn lagði ísfisktogarinn Þórunn Sveinsdóttir VE úr höfn í Vestmannaeyjum. Með um borð var Eyjamaðurinn góðkunni Óskar P. Friðriksson vopnaður myndavél sinni.
Óskar Þór Kristjánsson skipstjóri segir að fyrst hafi verið haldið á Öræfagrunn. „Það var mokveiði af ýsu og við vorum þar í rúman hálfan sólarhring,“ lýsir hann upphafsdegi túrsins sem átti eftir að standa í rúma sex sólarhringa og berast víða.
„Svo fórum við aðeins dýpra á Öræfagrunnið og fengum smávegis af ufsa. Þá fórum við út á Þórsbanka og fengum 11 tonn og 9 tonn af þorski. Síðan keyrðum við suður á Verkamannabanka, sem er sunnan við Þórsbankann, en það var bara eitthvað lítið þar,“ segir Óskar skipstjóri en þegar þarna var komið sögu var túrinn á öðrum sólarhring
Allir að leita að ufsa
Eftir þetta lá leiðin upp á Breiðdalsgrunn.
„Þar var ágætis veiði en það var bara svo lélegur þorskur og léleg ýsa. Það var veitt ofarlega í Berufjarðarál og við enduðum norðan við suðausturhornið á Papagrunni. Það voru níu tonn af ágætisfiski en þá var maður bara kominn með nóg af ýsu og þorski,“ lýsir Óskar túrnum áfram.
Þá hafi verið farið á Stokksnesgrunn og Mýragrunn. „Við vorum að leita að ufsa en það var rólegt það sem eftir var af túrnum,“ segir Óskar.
Ufsinn sjáist ekki. „Það eru allir að leita að ufsa en hann bara finnst ekki,“ segir Óskar. Hann kveður minna virðast vera af ufsa en venjulega og er beðinn um skýringar á því.
Hugsum fram í tímann
„Í fyrsta lagi á að fara að loka þessum uppeldisstöðvum þar sem smáufsinn er. Við verðum að hugsa fram í tímann,“ segir Óskar og nefnir í þessu samhengi Röstina, Standana, í kringum Eldeyna, LangaGrunn og Stutta-Grunn vestur af Eldey. Það megi kannski loka á Fjöllunum líka. Tími sé kominn til að bregðast við aðstæð[1]um þótt honum vitanlega hafi slíkt ekki verið rætt.
„Það þarf að vernda smáufsann og þetta er bara smáufsi á þessum stöðum,“ segir Óskar. Ekki sé að því hlaupið að koma því leiðar að svæðum sé lokað. „Þegar svona er þá þurfa þrír skipstjórar að leggja inn tillögu um að þessu sé lokað en þú færð aldrei þrjá skipstjóra til að samþykkja slíkt.“
Spurður hvort menn séu þá ef til vill ekki að horfa nógu langt fram í tímann segir Óskar að sér finnist það. „Og það geta eflaust verið fleiri staðir þar sem er svona smáufsi sem má alveg loka.“
Óvenjulegt á Selvogsbanka
Óskar segir að veturinn hafi verið óvenjulegur, sérstaklega á Selvogsbanka. „Það kom enginn fiskur þarna út og eiginlega ekkert af ufsa. Það var ýsa og svo var lýsa og karfi þarna. Þetta er mjög óvanalegt. Það er eins og einhver stjórnmálamaður hafi stjórnað þessu og sett þetta á hausinn,“ segir skipstjórinn sem kveðst ekki hafa skýringar á þessu.
„Svo var nóg af þorski fyrir innan okkar línu, það er eins og hann hafi bara ekki farið niður fyrir sextíu til sjötíu faðma. Ég man ekki eftir þessu svona slæmu á Selvogsbanka. Þetta er einfaldlega það allra versta sem ég veit um þarna,“ undirstrikar Óskar.
Spurður hvort menn hafi ekki verið að ræða þessa stöðu segir Óskar svo vera en að enginn hafi gefið skýringu á því hver orsökin sé. „Það er að minnsta kosti nóg æti en hvort það hafi verið svona lítið af loðnu eða hvað hefur gerst, ég veit það ekki.“
Sleppa við að moka sextíu tonnum
En aftur að túrnum. „Þetta var bara mjög góður túr. Þetta var eiginlega fullfermi,“ segir Óskar.
Fiskurinn er unninn um borð. „Þegar hann er kominn niður í móttöku er gert að honum og hreinsað innan úr. Lifrin er hirt úr þorski og ufsa og ef það eru einhver hrogn þá eru þau hirt líka. Svo er bara gert að þessu og þetta fer niður í lest og þar setja þeir þetta í kör,“ lýsir Óskar ferlinu.
Skipstjórinn segir framfarir í tækni nýtast afar vel fyrir áhöfnina. „Við erum með krapa hér um borð svo þeir þurfi ekki að vera að moka einhverjum fimmtíu til sextíu tonnum af ís í hverjum túr. Þeir sleppa alveg við það sem betur fer. Þeir halda bara á einni slöngu, ansi flott,“ segir hann.
Annað sem skipverjar fáist við í dæmigerðum túr segir Óskar til dæmis vera reglubundið viðhald á trollum og á landleiðinni sé allt þrifið; uppi á dekki og millidekkið og inni.
Sextán stöður um borð
Alls segir Óskar 26 menn vera um sextán stöður um borð í Þórunni Sveinsdóttur. Í þessum túr taldi áhöfnin fimmtán menn. „Við erum yfirleitt alltaf sextán en ef maður finnur ekki mann þá förum við bara fimmtán, það er allt í lagi, þá eru fimm á hvorri vakt. Þetta hefst ekki nema með góðri áhöfn,“ undirstrikar skipstjórinn.
Þótt Óskar verði ekki sextugur fyrr en á næsta ári hefur hann þegar verið 45 ár til sjós enda byrjaði hann á sjónum aðeins fjórtán ára. Hann hefur verið skipstjóri frá því á árinu 1992.
Skipstjóri úr sjómannsætt
Spurður hvort sjómennska sé ekki afar eðlilegur starfsvettvangur fyrir Eyjamann segir Óskar svo vera og bendir á að hann sé barnabarn Óskars Matthíassonar, þekkts skip[1]stjóra og aflakóngs á sjöunda áratug síðustu aldar.
„Og pabbi var náttúrlega í útgerð. Hann átti Emmuna, Emmu VE. Svo kom ég hérna yfir á Þórunni Sveins og er búinn að vera hátt í tuttugu ár hér hjá Sigurjóni bróður pabba þangað til að þeir seldu í fyrra,“ rekur Óskar starfsferilinn.
Vinnslustöðin keypti fyrirtækið svo nú vinnur Óskar þar en fjölskyldan hefur sett fjármunina sem fengust við söluna í metnaðarfullt landeldi á laxi í Eyjum í fyrirtækinu Laxey.
„Þeir eru að byggja þar upp á fullu. Þetta verður ágætis lyftistöng fyrir bæjarfélagið,“ bendir Óskar á.
Alltaf betra og betra
Spurður um breytingar sem orðið hafi í umhverfi sjómannsins á þessari tæpu hálfu öld sem hann hefur verið á sjónum nefnir Óskar fyrst tækin í brúnni og búnaðinn á trollunum.
„Svo er alltaf verið að þróa þessa hlera betur, veiðarfærin og skipin sjálf. Þau eru náttúrlega alltaf að verða betri og betri og meiri aðbúnaður fyrir mannskapinn,“ segir Óskar. Skipin séu bæði stærri og öruggari en áður. „Það eru færri slys en þau gerast enn, því er nú verr og miður.“ Viðhorf til sjómanna og sjávarútvegs almennt á þess[1]um áratugum segir Óskar hafa breyst gífurlega.
Vildu ekkert vita þegar illa gekk
„Eftir að útgerðirnar byrjuðu að hagnast á þessu þá fór almenningurinn í landinu að taka við sér með það að þau ættu auðlindina. En þau áttu ekkert auðlindina þegar allar útgerðir voru á hausnum. Þá vildi enginn skipta sér af þessu,“ segir Óskar.
Auðvitað hafi verið sagt frá þessari stöðu í blöðunum á sínum tíma þegar allt hafi verið meira og minna á hausnum en almenningur hafi ekkert viljað af þessu vita.
„Svo, kannski tíu árum eftir að þetta kvótakerfi kom og menn gátu farið að selja þetta – sem var náttúrlega algjört bull – þá var öfundin orðin mikil hjá fólkinu í landinu yfir því að menn væru að hagnast mikið á þessu. En fólkið talaði ekkert um þetta þegar illa gekk,“ segir Óskar.
Röfla yfir hagnaðinum
Í dag sé hagnaður hjá öllum þessum fyrirtækjum.
„Núna eru bara allir á Íslandi röflandi yfir þessum hagnaði en þeir röfla ekki yfir hagnaði á Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Eigum við ekki þessa banka? Mér finnst menn að minnsta kosti ekki sýna því mikinn áhuga miðað við á sjávarútveginum. Það er mín skoðun,“ segir Óskar.
Þá förum við aftur um borð í Þórunni Sveinsdóttur. Óskar segir að veturinn hafi verið sérkennilegur og ítrekar að þeir hafi verið afar lítið á Selvogsbanka.
„Við vorum mest úti á Eldeyjarbanka. Þar var meiri fiskur, aðeins blandaðri. Það kom bara ekkert á þennan Selvogsbanka, þetta var eitt gjaldþrot. Bankinn fór á hausinn, það kom að því,“ segir skipstjórinn.
Karfinn snarminnkað
Um átján tonn af karfa fengust í túrnum. „Það er bara lítið af karfa frá Eyjum og austur fyrir land, hann hefur snarlega minnkað síðustu tvö ár, alveg helling,“ segir Óskar. Það eru því ýmis teikn á lofti.
„Maður veit ekki hvort það er hækkandi hitastig sjávar sem veldur því að þetta er ekkert miðað við hvernig þetta var fyrir tveimur árum. Þá var hægt að ganga að karfa í Lónsbugtinni, Breiðamerkurdýpi, á Kötlugrunni og ofan í Reynisdýpi.“
Að sögn Óskars verður róið á Þórunni Sveinsdóttur fram að 10. júlí. „Þá stoppum við til 22. ágúst. Daginn áður, 21 ágúst, fer öll áhöfnin í Slysavarnaskólann.“ Þannig að áfram verður veitt fram í júlí. „Það er náttúrlega alltaf verið að reyna að ná í ufsann. En það gengur bara ekki svakalega vel. En við eigum eitthvað eftir af þorski og ýsu og karfa. Við höldum ótrauðir áfram.“