Uppsjávarfiskar berjast hart um fæðuna í Norðurhöfum og í ljós hefur komið að síld og makríll standa sig vel en kolmunninn hefur tapað baráttunni um “brauðið”. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri doktorsritgerð norsks fiskifræðings.
Fæða uppsjávarfiska er aðallega svifdýr af ýmsu tagi og er rauðátan mikilvægust. Stofnar uppsjávarfiska hafa stækkað undanfarin 15 ár á heildina litið en magn svifdýra hefur minnkað. Hugsanlega er um of mikið afrán að ræða.
Uppsjávarfiskarnir hafa einnig haldið sig á misjöfnum svæðum á þessum tíma. Ekki er hægt að skýra það með breytingum á sjávarhita hvað síld og kolmunna varðar en makríllinn hefur hins vegar getað synt mikið norðar en áður vegna hlýnunar sjávar.
Fiskurinn syndir lengra en áður í fæðuöflun og hann forðast jafnframt sem mest að vera innan um keppinauta sína á því svæði sem tekið var til rannsóknar. Fram kemur að stofnstærð síldar, kolmunna og makríls hafi verið um 15 milljónir tonna alls árið 1997 og þessir fiskar hafi étið það ár um 80 milljónir tonna af svifdýrum, þar af 35 milljónir tonna af rauðátu. Ennfremur segir að síld og makríll hafi staðið sig vel í samkeppni um fæðuna og sigrað kolmunnann.