Vegna mikils niðurskurðar á heildarkvóta kolmunna í Norður-Atlantshafi á þessu ári munu uppsjávarveiðiskip HB Granda ekki stunda beinar kolmunnaveiðar á árinu. Eftirstöðvar á aflamarki félagsins í kolmunna eru einungis 590 tonn en vonast er til að sá kvóti dugi fyrir kolmunna sem veiðist sem meðafli á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum og makrílveiðum í sumar.
Þetta kemur fram á vef HB Granda og á raunar við um allar íslenskar uppsjávarútgerðir.
Undanfarin ár hafa skip HB Granda farið til kolmunnaveiða strax að lokinni loðnuvertíð og í fyrra nam kolmunnaafli þeirra alls 18.200 tonnum. Nú er öldin önnur og skipin eru verkefnalaus þar til að síld- og makrílveiðar hefjast. Það verður að öllum líkindum ekki fyrr en í byrjun júní en þess má geta að síðustu loðnufarmar á nýliðinni vertíð bárust á land 11. mars sl.
Sjá nánar á vef HB Granda.