Öll kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað komu til hafnar fyrir helgina enda kolmunnaveiðin á miðunum vestur af Írlandi dottin niður.
Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins. Þar segir jafnframt:
Eftirtalin skip lönduðu á Seyðisfirði í lok síðustu viku: Börkur NK 1.350 tonnum, Beitir NK rúmlega 300 tonnum, Margrét EA tæplega 200 tonnum og Vilhelm Þorsteinsson EA rúmlega 1.100 tonnum. Frá því um miðjan mars hefur tæplega 5.000 tonnum af kolmunna verið landað á Seyðisfirði. Hákon EA landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað 18. mars sl. en þar hefur tæplega 2.500 tonnum verið landað í þessum mánuði.
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir í fréttinni að gera megi ráð fyrir að nú verði hlé á kolmunnaveiðunum.
„Ekki er ósennilegt að haldið verði til veiða á ný viku af apríl, en veiði hefur oft hafist í færeysku lögsögunni um miðjan aprílmánuð,“ segir Sturla.