,,Það er búið að vera býsna rólegt yfir veiðunum í færeysku lögsögunni síðustu vikurnar og fiskurinn virðist halda sig á frekar afmörkuðu svæði. Kolmunninn, sem þarna er vestur af  Færeyjum, virðist hafa lítinn áhuga á því að færa sig norðar en svo brá við á heimsiglingunni nú að það lóðaði á kolmunna innan íslensku landhelginnar í fyrsta skipti á þessari vertíð,“ segir Arnþór Hjörleifsson skipstjóri á Lundey NS í samtali við vef HB Granda.

Veiðarnar á því svæði innan færeysku lögsögunnar, sem skipin hafa stundað undanfarnar vikur, eru háðar því að nota verður smáfiskaskilju á flottrollunum. Arnþór segist ekkert hafa á móti því en hann furðar sig á að stórt svæði norðar í færeysku landhelginni sé lokað fyrir veiðum og hið sama megi segja um stórt svæði í Rósagarðinum innan slensku landhelginnar.

,,Ég skil ekki af hverju veiðar eru ekki leyfðar á þessum svæðum ef smáfiskaskiljur eru notaðar við veiðarnar,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Lundey NS kom til Vopnafjarðar seint í gærkvöld með fullfermi af kolmunna. Þetta var síðasta veiðiferð skipsins fyrir sjómannadaginn, sem haldinn verður hátíðlegur nk. sunnudag, en Arnþór Hjörleifsson skipstjóri segir að stefnt sé að því að hvert hinna þriggja uppsjávarveiðiskipa HB Granda fari í a.m.k. eina veiðiferð á kolmunna eftir sjómannadaginn.

Ingunn AK var lögð af stað frá miðunum í gærdag og var ferðinni heitið til Vopnafjarðar og Faxi RE mun fylgja í kjölfarið þannig að öll uppsjávarveiðiskipin verða komin til landsins fyrir sjómannadaginn.