Dagana 10. – 11. október var fundur strandríkja um stjórnun veiða úr kolmunnastofninum á árinu 2012 haldinn í Lundúnum. Samkomulag náðist um að heildarafli verði 391.000 tonn og er um að ræða mikla aukningu frá árinu 2011 þegar heildaraflinn var ákveðinn 40.100 tonn.
Hlutur íslenskra skipa verður 63.477 tonn á árinu 2012 að frádregnum flutningi aflamarks á milli ára.
Ákvörðunin er samkvæmt ráðgjöf ICES og þeirri langtíma stjórnunaráætlun sem strandríkin samþykktu haustið 2008, en áætlunin er í samræmi við varúðarnálgun við stjórn fiskveiða að mati ICES. Þeirri langtíma stjórnunaráætlun er ætlað að tryggja sjálfbæra nýtingu stofnsins til lengri tíma.