Ráðgert er að grænlensku uppsjávarskipin Tasilaq og Tuneq haldi fljótlega til tilraunaveiða á kolmunna við Austur-Grænland og hugsanlega verður loðna við Vestur-Grænland einnig könnuð, að því er Sturla Einarsson, skipstjóri á Tasilaq, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Sturla sagði að sumarið 2006 hefðu íslensk skip veitt kolmunna við Dohrnbanka. Vert væri að kanna hvort þarna væri kolmunni á ferðinni að þessu sinni eða annars staðar í grænlensku lögsögunni.

Fram kom hjá Sturlu að ef til vill myndu þeir einnig huga að loðnu vestan við Hvarf. „Við Vestur-Grænland er sérstakur loðnustofn sem lítið sem ekkert er vitað um og engar veiðar hafa verið stundaðar úr. Vart hefur orðið við töluvert af loðnu í fjörum á hrygningartíma meðfram vesturströndinni. Þá hefur loðna ánetjast í troll rækjuskipa,“ sagði Sturla.

Royal Greenland Pelagic gerir Tasilaq og Tuneq út. Sem kunnugt er hétu þessi skip áður Guðmundur VE og Þorsteinn ÞH en voru seld til Grænlands á síðasta ári.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.