Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva, hafa sent sjávarútvegsráðherra sameiginlegar umsagnir um frumvörpin. Það er mat samtakanna að verði frumvörpin óbreytt að lögum muni þau kollvarpa rekstri starfandi útvegsfyrirtækja og stórauka skattheimtu á sjávarútveginn, aflahlutdeildarkerfi sem hafi í öllum aðalatriðum reynst vel verði gjörbreytt og óvissa í greininni aukin. Jafnframt ógni frumvörpin tilveru fyrirtækja sem þjónusti útveginn og setji hag og framtíð starfsmanna útvegsfyrirtækja í uppnám. Mikil óvissa verði þannig sköpuð um hagsmuni byggðarlaga og framtíð þeirra.
Í umsögnunum segir m.a.:
,,Það vekur athygli að ekkert er að finna í þeim frumvarpsdrögum sem lögð hafa verið fram sem líklegt er að bæti hag fyrirtækja sem starfa við sjávarútveg. Minna má á að Íslendingar hafa áratuga reynslu af miklum afskiptum hins opinbera um málefni útgerðar og fiskvinnslu sem byggði á stöðugum inngripum í rekstrarskilyrði, opinberum rekstri, og sérstakri úthlutun fjármagns og fastafjármuna til valinna fyrirtækja og byggðarlaga. Allt endaði þetta með reglulegum gengisfellingum krónunnar, efnahagslegum kollsteypum og björgunaraðgerðum til illra staddra fyrirtækja. Ótrúlegt er að eftir alla þessa reynslu skuli nú, rúmum tveimur áratugum eftir síðustu björgunaraðgerðir, haldið af stað í sömu vegferð sem reynst hefur svo illa hér á landi og í raun hvarvetna sem þessi leið hefur verið farin.”
Sjá nánar umsagnirnar á vef Samtaka atvinnulífsins .