Í rannsóknaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar í Eyjafirði og á Skjálfanda, sem getið er um í annarri frétt hér á vefnum, hefur töluverður fjöldi af skarkolum endurheimst á sömu stöðum og þeir hafa verið merktir, en enginn þeirra hefur þó verið jafn þaulsetinn og skarkoli sem nú gengur undir nafninu „Ófeigur“.

Nafnið fékk hann að loknum nýafstöðnum leiðangri þegar í ljós kom að þessi sami skarkoli hefur nú endurheimst þrjú ár í röð á nákvæmlega sama stað. Hann hefur því verið veiddur a.m.k. fjórum sinnum yfir ævina en syndir enn frjáls úti fyrir Barminum á Skjálfanda og er væntanlega að ljúka hrygningu í þessum tímapunkti. Ekki verður nú sagt um Ófeig að hann sé hraðvaxta þ.s. á þessum þremur árum sem liðin eru frá merkingu hefur hann aðeins lengst um 1 cm, vaxið úr 41 í 42 cm að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.

Í þessum leiðangri endurheimtist einnig skarkoli í Eyjafirði sem var merktur með DST-skrásetningarmerki (rafeindamerki) árið 2009. Með því að hlaða niður upplýsingum úr þessu merki má sjá hitann og dýpið sem þessi skarkoli hefur haldið sig á frá því hann var merktur árið 2009 fram í apríl á þessu ári. Með því að skoða ferlana má greinilega sjá að skarkolinn heldur sig á tiltölulega grunnu vatni yfir sumartímann, dýpkar síðan á sér yfir veturinn en gengur síðan aftur upp á grunnið þegar fer að vora. Árstíðasveiflur í sjávarhita við Ísland sjást líka greinilega í merkinu og sýnir að skarkolinn lifir við nokkuð vítt hitabil eða frá 1°C upp í rúmlega 11°C. Líklega er þetta einn lengsti samfelldi hita- og dýpisferill sem hefur fengist fyrir þessa tegund í heiminum til þessa.