„Rannsóknir hafa sýnt með nokkuð góðri vissu að afrán hvala hafi ólíklega neikvæð áhrif á efnahagslega mikilvæga fiskistofna og að afrán stórhvela skarist ekki marktækt á við sjávarútveginn á Íslandi,“ segir í nýrri skýrslu sem unnin er af Dr. Eddu Elísabetu Magnúsdóttur, lektor í líffræði við Háskóla Íslands, að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Edda segir að gífurleg þekking hafi skapast innan vísindanna um lífshætti hvala og með góðri vissu megi „draga þá ályktun að hvalir hafi almennt jákvæð áhrif á vistkerfi sín og veiti vistkerfisþjónustu sem getur ýtt undir lífbreytileika og frjósemi vistkerfa í hafi.“

Um mögulegt framlag hvala til kolefnisbindingar segir að samkvæmt ýmsum rannsóknum megi áætla, „þó ennþá með allnokkurri óvissu, beint framlag hvala til kolefnisbindingar í formi hvalahræja sem flytjast niður í djúpsjó og er samhljómur meðal þeirra að það framlag sé marktækt og muni eflast umtalsvert með endurheimt hvalastofna.“

Greining á óbeinum áhrifum hvala til kolefnisbindingar með virkjun frumframleiðslu sé aftur á móti enn háð mikilli óvissu.

Hvalastofnar hafa styrkst

Þá segir að með nokkuð góðri vissu megi sjá að „ákveðnir hvalastofnar, eins og hnúfubakar og langreyðar, hafa styrkst á íslenskum og nærliggjandi hafsvæðum frá því á níunda áratug 20. aldar og hafa líklega náð stöðugleika í vistkerfum svæðisins.“

Engu að síður hafi þessar tegundir ekki náð áætlaðri stofnstærð sinni frá því fyrir tíma atvinnuhvalveiða.

Aðrar tegundir hvala standi þó enn „verulega höllum fæti, líkt og steypireyðar, sem þrátt fyrir aukningu telja aðeins um 3000 dýr í Norður Atlantshafi og Norður Atlantshafs sléttbakar sem eru á barmi útrýmingar.“