Stutt er á milli mettúra hjá Tómasi Þorvaldssyni GK. Sagt er frá því á frétta- og myndasíðunni Bátar og Bryggjurölt, sem Jón Steinar Sæmundsson ljósmyndari með meiru heldur úti, að á dögunum kom skipið til hafnar og nýtt met í aflaverðmætum staðreynd. Aflinn var aðallega grálúða og þorskur ásamt slöttum af djúpkarfa og ufsa. Nýtt met í aflaverðmætum er staðreynd, eða 403 milljónir króna.

Aflinn fékkst allur á vestfjarðarmiðum, grálúðan og karfinn á Hampiðjutorginu en þorskur og ufsi frá Víkurál og austur í Þverál, segir í frétt Báta og bryggjurölts. Þokkalegt veður var á þeim mest allan túrinn. Skipsstjóri í túrnum var Bergþór Gunnlaugsson.

Mettúr númer 1

Eins og Fiskifréttir fjölluðu um í apríl kom Tómas Þorvaldsson að landi með afla að verðmæti tæpar 338 milljónir sem var þá mesta verðmæti sem skip útgerðarinnar hafði komið með að landi í einni veiðiferð. Þá fékkst mikið af aflanum í Seyðisfjarðardýpi og kantinum þar suður eftir. Einnig á Selvogsbanka, Jökuldýpi, Eldeyjarbanka og Skerjadýpi. Einnig var farið á lúðuslóð norður af Horni. Þaðan var haldið í Reykjafjarðarál, austan við Grímsey, Langanes og hringurinn svo kláraður í Grindavík.

Þorbjörninn tók við Tómasi Þorvaldssyni í júní í fyrra og hét skipið áður Sisimiut. Bergþór er skipstjóri á móti Sigurði Jónssyni.