„Ég held að hugmyndin að baki Knarr sé gríðarlega sterk og hún sé skýringin á því hvers vegna íslensk fyrirtæki innan vébanda Knarr hafa náð svo miklum árangri á svo stuttum tíma,“ segir Guðmundur Hannesson, sölu- og markaðsstjóri og einn eigenda Kælismiðjunnar Frost. Fyrirtækið er eitt þeirra sex sem hafa náð samningum um eina heildarlausn á tíu skipum fyrir útvegsrisann Noreby í Rússlandi.

[email protected]

Frost er eitt af stærstu verktakafyrirtækjum á sínu sviði í Evrópu . Guðmundur segir að það sem hafi skilað fyrirtækinu á þennan stað sé framsækni innan íslensks sjávarútvegs. Tæknivæðingin hafi verið langt umfram aðrar þjóðir sem horfi til þess sem er að gerast innan tæknigeirans hérlendis.

Guðmundur segir að stöðugt fleiri fyrirtæki leiti eftir heildarlausnum á sínum málum. Í því felst að búið sé að leysa þau svæði sem skarast ef samið er við einstaka verktaka um einstaka þætti.

„Það menn hafa samtvinnað gráu svæðin á milli sín er viðskiptavininum mun rórra. Öðrum kosti felst mikil vinna í því fyrir þá sjálfa að leysa slík mál og oft hafa þeir jafnvel ekki þekkingu á því hvernig það skuli gert. Með Knarr lausninni sjáum við sjálfur um að leysa þessa hluti okkar á milli þannig að verkkaupinn þarf ekki að vera milliliður milli aðila,“ segir Guðmundur.

Fyrirtæki eru að sjá kostina við þetta og samstarf af þessu tagi hafi sannað sig í þeim verkefnum sem Frost, Skaginn 3X og Rafeyri hafa tekið að sér í samvinnu undanfarin misseri. Fyrirtækin hafa selt þrjár vinnslur í Færeyjum, allmargar á Íslandi og núna síðast liggja fyrir samningar við tvær stórar uppsjávarvinnslur á Kúril-eyjum og Petropavlosk í Rússlandi. Guðmundur segir útgerðina í Rússlandi líka sýna mikinn áhuga á heildarlausnum frá Knarr. Í þessari heildarlausn felast öll brúartæki, spilbúnaður, frystikerfi, vinnslubúnað og hönnun á sjálfu skipinu.

Fjárfestingar næstu tíu árin

Guðmundur segir engan vafa á því að fjölmörg önnur tækifæri séu framundan á þessu sviði í Rússlandi. Rússar séu rétt að hefja endurnýjun á skipaflotanum og fiskvinnslum. Þeir hafa lengi búið við gamlan kost í mörg ár. Nú er mikill hvati frá stjórnvöldum til fjárfestinga. Þeir verða í fjárfestingum næstu tíu árin í þessum geira,“ segir Guðmundur.

„Þau verkefni sem við erum með í gangi og þær fyrirspurnir sem liggja fyrir benda eindregið til þess. Við erum á harðahlaupum. Í sögu Frost hefur aldrei verið svo vel bókað af verkefnum fram í tímann. Það sem við erum með núna í höndum eru verkefni til næstu þriggja til fjögurra ára. Við höfum verið að bæta við okkur mannskap allt síðasta ár til þess að mæta þessari aukningu og það hefur gengið mjög vel.  Það eru ótrúleg hlunnindi að geta verið í þeirri stöðu. Verkefnastaðan núna og til framtíðar kallar á stækkun. Það eru ekki mörg ár síðan starfsmenn Frost voru 30 en nú erum við 70 með starfsstöðvar á Akureyri og Garðabænum. Við erum líka með samninga við erlend fyrirtæki og leigjum til okkar sérhæfða suðumenn til þess að taka kúfinn af í stórum verkefnum.  Það er skortur á sérhæfðu vinnuafli á Íslandi og það er farið að há starfsemi tæknifyrirtækja. Ég kalla eftir átaki í menntamálum á Íslandi sem miði að því að efla málm- og iðngreinar. Það þarf mikið átak til þess að fjölga blikksmiðum, vélvirkjum og plötusmiðum, svo dæmi séu tekin, og gera þessar greinar að aðlaðandi kosti fyrir ungt fólk,“ segir Guðmundur.