Knarr Maritime, nýlega stofnað fyrirtæki á sviði skipalausna, hyggur á mikla sókn í Rússlandi þar sem framundan er gríðarleg endurnýjun fiskiskipaflotans með alls um 150 nýjum skipum. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú á leið til Rússlands að kynna þarlendum skipasmíðastöðvum Knarr Maritime pakkann og verður jafnframt fundað með hátt settum aðilum innan sjávarútvegsráðuneitis Rússlands.
Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr Maritime, segir gríðarleg tækifæri framundan í Rússlandi fyrir íslensk tæknifyrirtæki á sviði skipalausna. Knarr Maritime er markaðsarmur og samstarfsvettvangur íslensku tækni- og hönnunarfyrirtækjanna Nautic ehf., Skagans 3X, Kælismiðjunnar Frost ehf., Brimrúnar ehf., Naust Marine ehf. og Verkfræðistofunnar Skipatækni ehf.
Undanfarna mánuði hefur Knarr Maritime með samstarfsfyrirtækjunum Nautic og Skipatækni verið að vinna í að klára alla hönnun á nýjum skipum og er komið með línu af 28 metra upp í 96 metra löng skip. Fyrirtækið vinnur hörðum höndum í því að hasla sér völl hér heima og erlendis.
96 metra langt og 20 metra breitt
„Rússneskur sjávarútvegur er að fara í gegnum miklar breytingar á komandi árum, meðal annars hvað varðar endurnýjun fiskiskipaflotans og landvinnslu. Á komandi mánuðum verður mikil vinna lögð í rússneska markaðinn enda mikil tækifæri þar. Knarr Maritime og þau félög sem standa að félaginu hafa yfir að ráða áratuga reynslu í iðnaðinum og mjög þekktum tækjabúnaði sem hefur verið seldur um allan heim,“ segir Haraldur.
Stærsta skipið í nýrri skipalínu Knarr er 96 metra langur og 20 metra breiður frystitogari með mjöl- og lýsisverksmiðju. Það ber 1.775 tonn af frystum afurðum á brettum og allt að 500 tonn af fiskimjöli og um 120 tonn af lýsi. Í skipinu eru sömuleiðis 4 RSW tankar, samtals 280 rúmmetrar, og 160 rúmmetra fjölskipt fiskimóttaka. Í skipinu eru 13 eins manns káetur og 58 tveggja manna, samtals pláss fyrir 129 manns.
Alfreð Tulinius hjá Nautic og Bárður Hafsteinsson hjá Skipatækni hafa haft veg og vanda með allri teiknivinnu og hönnun nýju skipanna. Á síðustu misserum hafa komið 7 nýir ísfisktogarar til landsins sem eru teiknaðir af þeim félögum og mörg þessara skipa hafa að hluta eða allan búnað frá þeim 6 tæknifyrirtækjum sem standa að baki Knarr Maritime. Það sem einkennir þessi skip er stefnið sem er kallað Enduro Bow en líka hefur það verið kallað Bárðarbunga og er þá vísað í Bárð Hafsteinsson skipaverkfræðing, en hann kom fram með þessa hönnun fyrir nokkrum áratugum á Flekkefjord togurunum sem höfðu svipað stefnislag en mun minna en nú.
„Bárður byrjaði að skoða þetta stefni aftur fyrir Samherjafrændur en þeir höfðu áhuga á að skoða þetta stefnislag betur og úr varð stærra stefni sem hefur marga mjög góða kosti fyrir skipið, eins og meiri burðagetu, betri sjóhæfni og mikið betra pláss fyrir vinnslu skipsins. Þess má geta að millidekkið er súlulaust sem gefur mikið betra pláss fyrir vinnsludekkið sem er afar mikilvægt til að ná sem bestu flæði fiskvinnslunnar,“ segir Haraldur.