Kjarnorkuknúinn bandarískur kafbátur, USS Indiana, er í stuttri þjónustuheimsókn í íslensku landhelginni í dag. Varðskipið Freyja fylgir kafbátnum um landhelgina og í Stakksfjörð, þar sem fram fara áhafnaskipti og önnur þjónusta við kafbátinn.
Landhelgisgæsla Íslands leiðir framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið í samræmi við settar verklagsreglur.
Þetta er í fimmta sinn sem kjarnorkuknúinn kafbátur bandaríska sjóhersins kemur í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi eða frá því að utanríkisráðherra tilkynnti 18. apríl sl. að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu úti fyrir ströndum Íslands til að taka kost og skipta út hluta áhafnar. USS Indiana er orrustukafbátur af Virginia-gerð og slíkir kafbátar bera ekki kjarnavopn.