Klettur - félag smábátaeigenda á Norðurlandi eystra - boðar félagsmenn sína á Húsavík til fundar í kvöld til þess að taka afstöðu til draga að kjarasamningi sjómanna á smábátum og útgerðarmanna sem fulltrúar Kletts annars vegar og Framsýnar stéttarfélags hins vegar hafa gert.
Náist samkomulag um kjarasamninga fyrir smábátasjómenn á Norðurlandi eystra er mögulegt að sá samningur verði fordæmisgefandi fyrir smábátasjómenn um landið allt, að mati Péturs Sigurðssonar formanns Kletts, félags smábátaeigenda á Norðurlandi.
,,Lengi framan af reru eigendur einir á bátum sínum en á seinni árum hafa bátarnir stækkað og algengara er orðið að launamenn séu á þeim. Þetta hefur kannski skapað þörf á að koma þessum kjarasamningum á,” sagði Pétur í samtali við RÚV nýlega.
Landssamband smábátaeigenda og Sjómannasamband Íslands stóðu fyrir nokkrum árum að gerð kjarasamnings fyrir sjómenn á smábátum en sá samningur var felldur af félögum smábátaeigenda.