Fiskveiðar drógust saman um eitt prósent hjá 25 stærstu fiskveiðiþjóðum heims á milli áranna 2015 og 2016, en fiskveiðar á heimsvísu drógust saman um 0,7%.

Kína er stærst með um 18 milljónir tonna eða um 19% af veiðum á heimsvísu. Þar á eftir koma svo Indónesía, Bandaríkin, Indland og Rússland en veiðar þessara fimm stærstu fiskveiðiþjóða heims voru á árinu 2016 samanlagt um 39 milljónir tonna eða rúm 42% af veiðum á heimsvísu.

Ansjósa sveiflar árangri
Veiðar dragast saman um 18% hjá Perú en helsta ástæða þess er samdráttur í ansjósuveiðum eftir mikla veiði árið 2015. Síle eykur fiskveiðar sínar um 14% á milli ára en helstu ástæður þess eru góðar veiðar á síld og aukning í ansjósuveiðum.

Ísland situr í 19. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,2% hlutdeild á heimsvísu. Ísland hefur verið að færast neðar á þessum lista síðustu ár þar sem aðrar þjóðir hafa aukið veiðar sínar umfram Ísland. Fiskveiðar Íslands dragast saman um 19% á milli ára en fjallað verður nánar um það í kaflanum um íslenskan sjávarútveg.

Heimild: Íslandsbanki. Íslenskur sjávarútvegur 2017.