DNV spáir því að Asíuríki muni á næstu áratugum verða ráðandi afl í bláa hagkerfinu svonefnda. Kínverjar muni þar vera í fararbroddi. Fjárfestingar Kínverja í bláa hagkerfinu muni árið 2050 nema ríflega fjórðungi af heildarfjárfestingum á því sviði, en með Kínverjum er þarna ekki átt eingöngu við íbúa í Kína sjálfu heldur einnig íbúa í Hong Kong, Taívan og Makaó.
Evrópa muni engu að síður halda stöðu sinni og ríflega það, því hlutur Evrópuríkja í fjárfestingum í haftengdri starfsemi muni að öllum líkindum aukast úr 11% í 14%.
Þessi þróun er ekki síst knúin af aukinni mannfjölgun og aukinni velmegun, sem verður til þess að eftirspurn eftir próteinum úr sjávarafurðum mun aukast. Reiknað er með að 60% heildareftirspurnarinnar árið 2050 komi frá ríkjum Suðaustur-Asíu, Kína og Afríku sunnan Sahara.
Einungis 9% eftirspurnarinnar eftir próteinum úr sjávarafurðum mun koma frá velmegunarríkjum Evrópu og 4% frá Norður-Ameríku.
Til ársins 2050 er talið að fjárfestingar í sjávarútvegi og annarri haftengdri starfsemi muni að vísu ekki aukast jafnmikið og hagvöxtur almennt á heimsvísu.
Allt þetta kemur fram í umfangsmikilli skýrslu sem DNV sendi frá sér undir lok síðasta árs þar sem spáð er í þróun haftengdrar starfsemi til ársins 2050. DNV er alþjóðlegt fyrirtæki, með höfuðstöðvar í Noregi, sem sér um flokkun, ráðgjöf, vottanir, skoðanir og rannsóknir af ýmsu tagi.