Kínversk stjórnvöld halda áfram að torvelda sölu á norskum eldislaxi til Kína í refsingarskyni fyrir að kínverskum andófsmanni voru veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir nokkrum árum.

Á árinu 2011 minnkaði laxasala Norðmanna til Kína um 60%, á árinu 2012 hélt salan áfram að falla og fyrstu sex mánuði þessa árs hefur orðið 25% samdráttur í sölu laxaafurða miðað við sama tíma í fyrra.

Refsiaðgerðirnar felast í strangara heilbrigðiseftirliti og því fylgja miklar tafir á afgreiðslu vörunnar inn í landið.

Meðan á þessu stendur hefur heildarinnflutningur á laxi til Kína snaraukist og nam aukningin 20% á fyrri helmingi þessa árs. Hafa m.a. Skotar og Færeyingar notið góðs af því, en megnið af laxainnflutningnum kemur frá Bandaríkjunum og Rússlandi. Þar er fyrst og fremst um að ræða frosinn kyrrahafslax sem aðallega fer í endurvinnslu og síðar í útflutning til annarra landa.