Kínverjar sendu tvö fiskveiðiskip til veiða á ljósátu á Suðurheimsskautinu á vertíðinni í ár. Skipin veiddu um 2 þúsund tonn af ljósátu í 23 daga leiðangri sem er um 100 tonn á dag að meðaltali. Þetta er þrisvar sinnum meiri afli en upphaflega var gert ráð fyrir.
Kínverjar hafa um árabil tekið þátt í ýmsum vísindaleiðöngrum til Suðurheimsskautsins en þetta er í fyrsta sinn sem þeir senda skip til veiða á ljósátu samhliða rannsóknum.
Í september 2009 kynntu Kínverjar fimm ára áætlun um rannsóknir á náttúruauðlindum á Suðurheimsskautinu. Í áætluninni fólst meðal annars að aukin áhersla yrði lögð á þróun fiskveiða og fiskvinnslu. Eitt verkefnið er að kanna hvernig stunda megi sjálfbærar veiðar á ljósátu.
Með því að taka þátt í ljósátuveiðum og vinnslu vonast Kínverjar til að þeir geti mætt mikilli eftirspurn heimafyrir frá landbúnaði og fiskeldi eftir fiskimjöli. Þar með yrði einnig dregið úr vaxandi þörf fyrir innflutning á fiskimjöli.
Heimild: www.fis.com