Fulltrúar Sendiráðs Kína með sendiherrann, He Rulong, í fararbroddi heimsóttu Íslenska sjávarklasann í síðustu viku og kynntu sér starfsemina þar með samstarf við Íslendinga í huga.

„Kínverjar eru náttúrlega stærsta fiskveiðiþjóð heims þannig að það er alveg ástæða fyrir okkur að opna eins mikið af tengslum við þeirra sjávarútveg eins og kostur er. Auk þess eru þeir í forystu núna í gervigreind og það er það svið sem við erum að horfa mjög mikið til núna,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, sem tók á móti kínversku gestunum ásamt samstarfsfólki sínu.

Hópurinn fékk kynningu á Blá hagkerfinu svokallaða og verkefninu „100% fiskur“ og á þeirri tækni og aðferðafræði sem beitt er hér á Íslandi við fullnýtingu sjávarfangs. Þór segir mögulegt samstarf við Kínverja á þessu sviði vera mjög áhugavert og spennandi.

Kynntu nýjan fjárfestingarsjóð

„Auk þess vorum við að kynna þeim í leiðinni okkar nýja fjárfestingarsjóð sem heitir Blue Nova Venture. Við erum þar að skoða að fjárfesta í tæknifyrirtækjum í Bláa hagkerfinu, bæði hér heima og líka á Norðurlöndunum, í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum. Þannig að við erum ánægð með að opna þennan kanal,“ segir Þór.

Fyrir okkur Íslendinga segir Þór það vera gríðarlega mikilvægt upp á sölu á okkar afurðum, tækni og fiski að opna betur á þennan markað og skoða hann, rétt eins og fleiri þjóðir hafi gert. Kínverjar geti lagt ýmislegt til málanna hér.

„Ég held að það sé ekki spurning að það sé mjög mikið tækifæri að fara í samstarf við þá,“ segir Þór. Menn séu alveg ófeimnir við að kanna möguleikana.

Geti verið í lykilhlutverki

„Við ræddum líka við þá um möguleika á að setja upp sjávarklasa í Kína. Það er á algjöru frumstigi en hugmyndafræðin okkar fellur vel að þeirra markmiðum um að nota þessa nýju kynslóð af menntuðu fólki, öfluga háskóla og rannsóknastofnanir til þess að taka þessa hundrað prósent hugmynd lengra, sem er að nýta betur afla og gera betur í sjávarútvegi. Og þarna geta náttúrlega tæknifyrirtækin okkar verið í algjöru lykilhlutverki,“ segir Þór.

Sjávarklasinn hefur þegar haslað sér völl á ýmsum vettvangi erlendis og heimsókn sendiherra Kína í höfuðstöðvarnar hér heima var ekki sú eina í síðustu viku því daginn áður hittu  fulltrúar Sjávarklasans ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis Indlands.

„Það er alveg ótrúlegur áhugi fyrir Íslandi og við þurfum einfaldlega virkilega að rækta þessi samskipti,“ segir Þór sem kveðst ekki í vafa um að samskipti á þessu sviði geta verið gagnleg fyrir báða aðila. „Þetta er bara stórmál,“ undirstrikar hann.

Innblástur frá Íslandi

Í svari frá kínverska sendiráðinu við fyrirspurn Fiskifrétta segir að Kína og Ísland hafi mikla möguleika varðandi samstarf í hinu sjálfbæra Bláa hagkerfi. Bæði löndin geta hagnast af samskiptum á mörgum sviðum, á sameiginlegum rannsóknum og fjárfestingum í sjálfbærum aðferðum.

Einnig segir í svari sendiráðsins að hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun og og hagnýting Íslenska sjávarklasans veiti innblástur. Tækifæri felist í því að nýta betur sjávarafurðir með því að læra af og vinna með Íslandi á sviði lyfja, snyrtivara, heilsufæðis, hliðarafurða af fiski og svo framvegis.

Ísland gæti líka lært af Kína

„Íslenski sjávarklasinn hefur sett á laggirnar systurklasa víða um heim. Tækifæri felst í því að kanna það að koma á fót systurklasa í Kína til að fóstra frumkvöðlafyrirtæki og nýsköpun og þjóna sem framlag til sjálfbærni í umhverfismálum,“ segir sendiráðið.

Þá segir að Ísland geti einnig lært af því sem Kínverjar hafi þróað, sérstaklega í fiskeldi á stórum skala, gervigreind og rafræna markaði.

„Með því að sameina sérþekkingu Íslands á sjálfbærni í sjávarútvegi og tækni- og iðnaðargetu Kína geta löndin farið áleiðis að bláa hagkerfinu og á sama tíma lagt sitt af mörkum til umhverfisverndar,“ segir að lokum í svarinu frá kínverska sendiráðinu.