Verð á fiskimjöli og lýsi í heiminum helst hátt vegna mikillar eftirspurnar frá Kína. Kvótar á bræðslufiski verða skertir í mörgum tegundum á næsta ári . Því má búast við áframhaldandi góðu verði á þessum afurðum.
Þetta kemur fram í fréttabréfi danska mjölframleiðandans FF Skagen. Þar segir að veiðar á ansjósu til mjölframleiðslu í Perú eigi sér stað í mánuðunum nóvember til janúar. Kvótinn í ár er tvær milljónir tonna og er mikið af mjölinu selt fyrirfram.
Bent er á að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hafi sett fram veiðiráðgjöf sína í þeim fisktegundum sem notaðar eru til mjöl-og lýsisframleiðslu. Kolmunnakvótinn hafi að vísu verið aukinn eftir að hafa verið skorinn niður við trog á yfirstandandi ári en varað hafi verið við því að kvótar í sandsíli og spærlingi kunni að verða skornir niður og tilkynnt hefur verið að brislingskvótinn í Eystrasalti verði skertur á næsta ári. Í fréttinni er hins vegar ekki nefnt að loðnukvótinn við Ísland hafi verið aukinn.
Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.