Kína verður líklega einhver mikilvægasti markaður heimsins fyrir sjávarafurðir á komandi áratugum, segir Jónas Engilbertsson forstöðumaður Icelandic Group í Japan.
Um það bil 400 milljónum manna í Kína hefur verið lyft úr sárri fátækt í vissar bjargálnir á tiltölulega stuttum tíma og um leið hefur orðið til millistétt sem er orðin fjölmennari en í nokkru einstöku Evrópuríki. Kína hefur hingað til náð að mestu að anna aukinni eftirspurn innanlands með eigin veiðum og eldi en Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) spáir því að neysla sjávarafurða í Kína aukist svo á næstu árum að árið 2020 muni markaðurinn þarfnast um 14 milljónum tonna meira af sjávarafurðum á ári en nú. Viðbótin samsvarar 12-13 faldri ársveiði Íslendinga.
Þetta kom fram í fróðlegu erindi Jónasar á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum.
Ítarlega er fjallað um málið í nýjustu Fiskifréttum.