„Það er dagamunur á þessu,“ segir Sigurður Jónsson, stýrimaður á Hákoni ÞH sem þessa dagana er á makríl í Smugunni.

Sigurður segir að gott skot hafi komið í fyrradag en síðan hafi veiðin verið lélegri í gærmorgun. Morguninn áður hafi Hákon og Ásgrímur Halldórsson SF, sem eru í samveiði með Júpiter VE, fundið góðan blett og veitt það sem vantaði til að senda Hákon til hafnar með tæp 1.200 tonn.
„Þetta er fínasti fiskur sem við höfum verið að fá þarna. Hann er í stærri kantinum, um 540 gramma fiskur,“ segir Sigurður. Allt hafi þetta fengist á tiltölulega stuttum tíma og fari í frystingu.
Auðvelt að lenda út úr blettunum
„Veiðin er ekki slæm en þeir endast bara alltaf svo stutt þessir blettir. Það er náttúrlega mikið af skipum og margir svangir,“ segir Sigurður. Rússarnir hafi einnig verið að fá ágæta veiði sunnar í Smugunni í fyrradag „Það er oft í þessari Smugu að það er veiði alls staðar og svo er lélegt alls staðar á sama tíma. Það er eins og það skjóti upp veiði í stuttan tíma.“
Veiðin er því einfaldlega upp og niður að sögn Sigurðar og það sé dæmigert. „Þetta er bara keppni í heppni. Það er mjög auðvelt að lenda út úr þessum blettum og það voru ekkert allir að mokfiska. Menn voru að fá allt upp í fjögur hundruð tonn í fyrra holinu í fyrradag og svo eitthvað minna,“ segir hann.
Eru að komast fyrir horn
Gert var ráð fyrir að Hákon kæmi til löndunar á Hornafirði á morgunflóðinu í dag, miðvikudag. „Við förum svo bara beint út aftur,“ segir Sigurður en vel rúmlega eins og hálfs sólarhrings sigling er á miðin í Smugunni.
„Það eru margir að verða komnir fyrir horn,“ segir Sigurður um kvótastöðuna og vísar þá til þess að geyma má 15 prósent af aflaheimildum frá kvótaárinu fram á næsta ár. „Það var miklu meira bras á bátunum í fyrra en það er búið að ganga miklu betur núna. Við þyrftum að ná einum hring á bátana í viðbót og þá er þetta komið.”