Eftir fjögurra ára samningaviðræður hafa forustumenn Kanada og Evrópusambandsins undirritað fríverslunarsamning sem skapa mun þúsundir nýrra starfa í Kanada og opna aðgang að hálfum milljarði nýrra viðskiptavina, eins og Stephen Harper forsætisráðherra Kanada orðaði það.

Með samningnum verður svo til öllum tollum aflétt í áföngum á næstu sjö árum af kanadískum sjávarafurðum sem seldar eru til ESB-landann, en hingað til hafa tollar á þessar vörur gert þær í mörgum tilfellum ósamkeppnisfærar á markaði Evrópusambandsins. Sem dæmi má nefna að reyktur lax, fryst túnfiskstykki og niðursoðinn túnfiskur hafa borið 22-24% toll og humar, hörpudiskur og skelflett rækja 6-20% toll.