Þjóðirnar sem liggja að Kasbíahafi ræða nú um að setja fimm ára bann við veiðum á styrju sem gefur hrognin í hinn eina og sanna kavíar. Hrogn styrjunnar eru gríðarlega verðmæt, eins og að líkum lætur, og hafa þjóðirnar freistast til þess að veiða styrjuna langt umfram það sem stofninn þolir til lengdar.

Rússnesk stjórnvöld lögðu síðast fram tillögu um fimm ára veiðibann árið 2008 en hún náði ekki fram að ganga. Kasakstan setti sig þá upp á móti tillögunni en núna á fundi ríkjanna við Kasbíahaf hafði Kasakstan snúið við blaðinu og er fylgjandi banni. Sama er að segja um Íran. Önnur ríki sem hafa hagsmuna að gæta eru Túrkmenistan og Azerbaijan.

Talið er að styrjustofninn í Kasbíahafi hafi minnkað um 70% á undanförnum áratugum.