Félag í eigu Haraldar Jónssonar, Span Ice, hefur fest kaup á frystitogaranum Atlantic Navigator og mun gera hann út til uppsjávarveiða í lögsögu Máritaníu. Skipið er engin smásmíði, 121 metra langt og 18,5 metra breitt og mælist rúmlega 8.900 brúttótonn.

Haraldur tjáði Fiskifréttum að skipið hefði verið afhent honum í síðustu viku og myndi væntanlega halda til veiða í lok þessa árs eftir að komið hefur verið fyrir vinnslubúnaði um borð og ýmsar lagfæringar gerðar. Stefnt er að því að sjálfvirkni verði sem mest í vinnslunni og að í áhöfn verði 70-80 manns.

Seljandi skipsins er norski stórútgerðarmaðurinn Kjell Inge Rökke. Haraldur gerir nú þegar út tvo togara við Máritaníu, Viktoríu og Gloríu.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.