Atlantic Seafood, einn af stærri einstöku kaupendum fisks á fiskmörkuðum á Íslandi, flytur út að meðaltali 15-20 þúsund tonn á ári af heilum, óunnum fiski sem fer á markaði víðs vegar um Evrópu. Gunnar Valur Sigurðsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir þó stöðuna í þessum efnum breytta frá því sem hún var áður. Fiskifréttir sögðu í netútgáfu sinni í gær frá gagnrýni innlends fiskverkanda sem telur óheftan útflutning á óunnum fiski á evrópska markaði skekkja samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja og skaða það markaðsstarf sem unnið hefur verið með íslenskar sjávarafurðir utan landsteinanna. Fleiri sjálfstæðar fiskvinnslur eru sama sinnis.
Gunnar segir umræðu um útflutning á óunnum fiski koma upp reglulega og hún sé oftast talsvert bjöguð. Hann segir að viðskiptalönd Atlantic Seafood séu helst Eystrasaltsríkin, Benelux-löndin, Suður-Evrópa, Frakkland, England, Írland, Norður-Írland og Skotland. Það sé því alls ekki svo að útflutningurinn einskorðist við Pólland og Litháen eins og stundum sé látið í veðri vaka.
„Við seljum í meginatriðum til allra landa þar sem kaupmáttur er nægilegur,“ segir Gunnar.
Vilja fiskinn heilan á grillið
Hann segir að umræðan hafi dálítið stjórnast af talsverðri sölu á heilum fiski til Póllands á árum áður en nú sé staðan sú að þangað fari um 100 tonn á ári. „Það stenst enga skoðun að við séum umboðsmenn fyrir einhverjar vinnslur í Austur-Evrópu og það má einfaldlega sjá í tölum frá Hagstofunni.“
Hann segir að það hafi líka vantað í þessa umræðu að í Evrópu séu þrjár þjóðir sem vilji fá íslenskan fisk flakaðan og bitaðan niður. Þessar þjóðir eru Bretland, Frakkland og Ísland. „Aðrar þjóðir vilja oftar en ekki fá fiskinn heilan á grillið. Það vill gleymast. Og við erum að bjóða vöru sem viðskiptavinir kalla eftir. Það er alls ekki svo að eingöngu sé kallað eftir unnum fiski þótt það sé stór hluti. Upp undir 40 til 50% af þessum fiski er bein notendavara.“
Tegundir sem lítið eru unnar á Íslandi
Gunnar segir það líka gleymast að stór hluti þess sem fari óunnið á markaði erlendis séu tegundir sem íslenskar fiskvinnslur vinni í mjög takmörkuðu magni, eins og steinbítur, skarkoli, smáýsa og fleiri tegundir.
Tækifærissinnar
„Vinnslurnar á Íslandi eru býsna öflugar og við stöndumst þeim ekki snúning í verðum. Ef ég á að nefna til sögunnar örfáar vinnslur sem geta keypt fisk á mörkuðum á mun hærra verði en við þá eru það Einhamar, Nýfiskur, Hafgæði, Erik the Red Seafood sem eru allt stórir og öflugir kaupendur og við getum ekki keppt við þá í verðum,“ segir Gunnar.
Hann segir Atlantic Seafood almennt ekki kaupa mikið magn af þorski á mörkuðunum nema þegar offramboð er, eins og á sumrin þegar margar vinnslur eru lokaðar vegna sumarleyfa. „Þá nýtum við tækifærið og kaupum og ef við gerðum það ekki væri verðið til sjómanna miklu lægra. Það eru tveir aðilar sem kaupa mest á þessum tíma, þ.e.a.s. við og Samherji sem leggur skipunum yfir hásumarið. Það er engin vinnsla á Íslandi sem getur haldið því fram að við séum skaðvaldar að þessu leyti því við getum selt inn á markaði sem borga lægri verð á þessum tíma og vinnslurnar geta selt inn á best borgandi markaðina eins og þeim lystir. Það er í mesta lagi í tvær vikur á ári sem við kaupum á markaði í harðri samkeppni við innlendar vinnslur en að öðru leyti stöndumst við þeim ekki snúning. Við erum hálfgerðir tækifærissinnar. Við komum inn þegar nóg er af fiski og kaupum líka tegundir sem eru lítið unnar á Íslandi.“
60-65% hlutdeild í skarkola
Atlantic Seafood er með 60-65% hlutdeild í þeim skarkola sem berst á markað og Gunnar segir að það sé í raun þjóðþrifamál þegar nóg veiðist af skarkola. Einungis ein vinnsla vinni þessa tegund hér á landi. Sú vinnsla hafi meira að segja selt Atlantic Seafood skarkola sem þeirra bátar hafa aflað þegar hún kemst ekki yfir að vinna allt sjálf. Atlantic Seafood kaupir einnig talsvert af karfa og segir Gunnar það hafa tíðkast í þó nokkurn tíma enda lítil vinnsla á þeirri tegund innanlands. Þær vinnslur hafi ekki vinnslugetu til að sinna öllu magninu. Varðandi það sjónarmið að Atlantic Seafood, og önnur fyrirtæki sem kaupa fisk á íslenskum fiskmörkuðum og flytja út heilan, stuðli að óeðlilegum fiskverðshækkunum með sínum innkaupum segir Gunnar: „Það eru þessar örfáu vikur á ári en við kaupum ekki mikið þegar fiskurinn er dýr. Við kaupum gjarnan mikið þegar mikið offramboð er og tökum því dálítið inni á fiskmörkuðunum,“ segir Gunnar.