Skaginn 3X náði að byggja upp vörumerki sem er þekkt á alþjóðavísu byggt á eigin hönnun og lausnum. Nú hefur Kapp Skaginn tekið við keflinu, félag sem stofnað var til að kaupa eignir Skagans 3X eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota í júlí síðastliðnum. Nýja félagið hefur hafið starfsemi og er um þessar mundir að ljúka stórum samningum um kæli- og frystikerfi við þrjá aðila á sviði sjávarútvegstengdrar starfsemi í Norður- og Suður-Ameríku.
Tæplega 130 manns störfuðu hjá Skaganum 3X og fyrirtækið velti 4,4 milljörðum króna á árinu 2023. Gjaldþrot fyrirtækisins var mikið högg fyrir atvinnulífið á Akranesi sem stóð höllum fæti fyrir. Ólafur Karl Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Kapps og framkvæmdastjóri Kapp Skagans, segir almenna jákvæðni ríkja í bæjarfélaginu nú þegar verið er að endurreisa reksturinn.
„Við erum komnir formlega af stað og verkefninu miðar nokkuð vel. Við erum að klára fyrstu verkefni til þess að hefja framleiðslu á ný. Við höfum verið að standsetja og ræsa vélar og höfum hafið sölu á varahlutum og öðru. Fyrstu stóru sölurnar verða til aðila erlendis, þekktra aðila í Norður- og Suður-Ameríku,“ segir Ólafur Karl.
Byrja á staðlaðri framleiðslu
Um er að ræða kæli- og frystibúnað sem voru hluti þess sem keypt var af þrotabúinu ásamt teikningum og einkaleyfum. Markmiðið er að byggja á staðlaðri vöru í byrjun endurreistrar starfsemi áður en fyrirtækið lætur að sér kveða í enn stærri verkefnum eins og heilu vinnslunum, til dæmis uppsjávarkerfum og öllum þeim búnaði sem þeim tilheyrir. Þessi staðlaða vara byggir á fyrri framleiðslu og þekkingu félagsins.
„Starfsmenn sem við höfum ráðið hafa allir á einhverjum tímapunkti unnið hjá félaginu. Það var stefna okkar að það yrði einmitt í fyrsta fasa byggt á fyrrum starfsmönnum sem tryggði það að starfsemi okkar gæti hafist hratt og örugglega. Það gekk mjög vel að endurráða reynda menn bæði í sölumálum og framleiðslu og þjónustu.“
Markaðurinn að taka við sér
Nú þegar hafa verið ráðnir um 20 manns til starfa hjá Kapp Skaginn og útlit fyrir að þeir verði orðnir 30 fyrir áramót. Starfsmannafjöldi eykst svo í takt við aukna starfsemi, verkefni og tekjur fyrirtækisins. Ólafur Karl segir að gæði búnaðarins og lausnanna sé vel þekkt meðal sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim. Þess vegna var ákveðið að halda Skaganum inni í nafni nýja fyrirtækisins. Menn tengi áfram þessar góðu lausnir við Kapp Skagann.
„Markaðurinn hefur verið erfiður síðustu árin vegna efnahagsástandsins og það hafa helst verið stóru verkefnin sem hafa verið sett á bið. Við erum kannski að koma inn á ágætum tíma hvað það varðar að margt af stóru verkefnunum sem áttu að klárast seinnipart 2022 og 2023 er enn ólokið. Við sjáum það núna að menn eru að fara af stað með fjárfestingar. Ástandið er að þokast í rétta átt bæði hér heima og erlendis. Þörfin er líka uppsöfnuð og sumir geta ekki beðið mikið lengur með endurnýjun. Það eru því jákvæð teikn á lofti,“ segir Ólafur Karl.