Vetrarvertíð fer af stað með krafti og áhöfnin á Kap II VE kvartar ekki undan aflabrögðunum. Kristgeir Arnar Ólafsson skipstjóri segir hug í mönnum og að með sama framhaldi megi búast við einni af betri vetrarvertíðum seinni ára.

Kap II er með bækistöðvar á Grundarfirði þar sem öllum afla er landað. Þaðan er ekið með hann suður í Landeyjarhöfn áður en hann fer síðasta spölinn með Herjólfi til vinnslu í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Frá Grundarfirði en líka örstutt á gjöful miðin í Breiðafirði þar sem fjöldi vertíðarbáta er nú að veiðum.

„Það hefur verið miklu meiri veiði núna en verið hefur undanfarin ár í janúarmánuði. Reyndar er norðaustanáttin dálítið að stríða okkur núna í Breiðafirðinum. Það eru ekki allir að fá hann núna því hann hverfur úr brúninni og fer á meira dýpi. En þetta hefur verið ágætt hjá okkur. Við höfum verið að flækjast þarna í miðjum Breiðafirðinum og það hefur verið ágætis veiði,“ segir Kristgeir.

Kristgeir er á heimaslóðum því hann er borinn og barnfæddur Grundfirðingur en býr núna fyrir sunnan. Hann segir allt með öðrum hætti núna en fyrir ári. Janúarmánuður í fyrra hafi verið eitt allsherjar veðrarvíti og lítið hægt að vera við veiðar nánast allan mánuðinn. Veðurfarslega séð sé janúar núna margfalt skárri og það sjáist strax í aflabrögðunum.

Klæðskersniðinn í saltfisk

„Hann Pétur á Bárði [Pétur Pétursson útgerðarmaður frá Arnarstapa], sem þekkir nú vel til hér í Breiðafirðinum, að þetta sé besta byrjun sem hann hafi séð á vertíð,“ segir Kristgeir.

Kap II fór í sinn fyrsta róður á vetrarvertíð 10. janúar. Frekar rólegt var yfir veiðinni í byrjun en þó frá 7 og upp í 10 tonn í róðri. Undanfarið hefur veiðin rokið upp og segir Kristgeir afraksturinn frá 15 og upp í 33 tonn í róðri.

„Núna síðustu daga höfum við verið með 18 tonn upp á hvern dag. Þetta er mest þorskur og örlítið af ufsa með. Þetta er mjög stór og fallegur fiskur og alveg klæðskerasniðinn í saltfiskvinnsluna. Meðalþyngdin á þorskinum er einhvers staðar í kringum átta kíló.“

Lítið í maga

Þrettán manns eru á Kap II og segir Kristgeir menn ekki þurfa að hafa áhyggjur af mönnunarmálum þegar þorskvertíð stendur sem hæst. Hann byrjaði með Kap II í júní 2017 en var áður skipstjóri á línubátnum Valdimar GK í tólf ár. Hann segir vertíðina sannarlega fara vel af stað núna en áður fyrr hafi þorskvertíðin oft ekki hafist fyrr en í febrúar. Hann vill ekki kveða úr um hvað valdi þessum góðum aflabrögðum núna en altént sé það ekki ætið.

„Það er ekkert í fiskinum. Hann er vel haldinn en við erum ekki að fá hann með magafylli hérna í Breiðfirði. Engin er hér loðnan og við höfum ekki orðið varir við síld. Oft um þetta leyti eltir þorskurinn síldina hingað inn í fjörðinn en svo er ekki nú,“ segir Kristgeir.