„Þetta er ótrúlegt að sjá“ og „mikið er þetta fallegt“ mátti ítrekað heyra leiðangursmenn á norska hafrannsóknaskipinu G.O. Sars segja þegar fylgst var með beinni útsendingu úr djúpum Grænlandssunds á föstudaginn var.

Þau stjórnuðu þar fjarstýrðum kafbáti sem heitir Ægir og svipuðust um í kantinum fyrir neðan Halamið á um 600 metra dýpi. Mikilvæg fiskimið eru skammt frá en þarna hefur lífríkið fengið að dafna í friði.

Í ljós komu sannkallaðar svampaborgir víða, fjölbreyttar svampabreiður og kórallar af ýmsu tagi en lítið sást af fiskum enda forðuðu þeir sér þegar málmkvikindið birtist og lýsti upp nánasta umhverfi.

Fylgst með myndum úr djúpinu í stjórnherbergi leiðangursins. MYND/Steinunn Hilma Ólafsdóttir
Fylgst með myndum úr djúpinu í stjórnherbergi leiðangursins. MYND/Steinunn Hilma Ólafsdóttir

  • Fylgst með myndum úr djúpinu í stjórnherbergi leiðangursins. MYND/Steinunn Hilma Ólafsdóttir

„Þetta svæði er mjög áhugavert upp á líffræðilega fjölbreytni. Þarna er mjög kalt og þetta er það djúpt að veiðar eru ekki stundaðar þarna. Svæðið er því tiltölulega óraskað,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun.

Sjö vísindamenn frá Íslandi tóku þátt í leiðangrinum, þar á meðal Julian Burgos sjávarvistfræðingur sem var leiðangursstjóri. Dýpst var kafað niður á um 1.500 metra dýpi, en á þessum slóðum vestur á landgrunninu eru meðal annars tvö neðansjávarfjöll þar sem lífríkið á „fjallstoppunum“ var kannað. Ekki er vitað til þess að nein opinber nöfn séu komin á þessi fjöll ennþá, frekar en mörg önnur svæði þar á hafsbotni.

Draumatæki

„Þetta var frekar gaman að prófa svona græju,“ segir Steinunn Hilma Ólafsdóttir um kafbátinn sem notaður var. „Það er ekki á hverjum degi sem maður hefur svona tæki í höndunum.“

Kafbáturinn er búinn tveimur fullkomnum myndavélum og gripörmum sem notaðir voru til þess að safna sýnum.

„Þetta er bara draumatæki. Hann getur handpikkað út þær tegundir sem þér finnst ástæða til að safna, og getur zoomað inn og greint öll smáatriðin í tegundunum sem auðveldar tegundagreiningu gríðarlega.“

Steinunn Hilma er ein þeirra íslensku vísindamanna sem voru um borð. Hún segir að svæðið sem beina útsendingin var frá reyndar skera sig nokkuð úr.

„Þéttleikinn var meiri og fjölbreytileikinn. Það var engin ein lífvera sem var ríkjandi tegund sem stundum er, mikið blandað af alls kyns tegundum.“

Kafbáturinn Ægir 6000 látinn síga niður í hafið. MYND/Julian Burgos
Kafbáturinn Ægir 6000 látinn síga niður í hafið. MYND/Julian Burgos

  • Kafbáturinn Ægir 6000 látinn síga niður í hafið. MYND/Julian Burgos

Steinunn Hilma hefur undanfarin ár stjórnað kortlagningarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, en Íslendingar hafa unnið að því jafnt og þétt að kortleggja hafsbotninn umhverfis Ísland, bæði með fjölgeislamælingum sem gefa góða mynd af gerð og lögun hafbotnsins, og með myndatökum sem notaðar eru til þess að kortleggja búsvæðin og kanna lífríkið.

Ómetanlegt í fjárhagsvanda

Guðmundur Þórðarson segir leiðangurinn á norska skipinu nýtast vel í kortlagningarverkefnum Hafrannsóknastofnunar.

„Þetta fer reyndar inn á bæði íslenska og grænlenska lögsögu, en það eru svo sem engin landamæri í lífríkinu.“

Norska skipið G.O. Sars er eitt fullkomnasta hafrannsóknaskip heims, smíðað árið 2003 og búið tækjum og veiðarfærum til hvers kyns hafrannsókna. Leiðangurinn er samstarfsverkefni Breta, Grænlendinga og Íslendinga sem hafa fengið norska skipið til afnota í gegnum Eurofleets, Evrópusjóð sem greiðir fyrir notkun skipsins. Hafrannsóknarstofnanir geta sett skip sín í þetta verkefni og til stóð að Árni Friðriksson yrði notaður í eitt slíkt á síðasta ári, en af því varð ekki vegna covid-faraldursins.

„Það er eiginlega ómetanlegt að hafa svona aðgang að svona,“ segir Guðmundur. „Svona leiðangrar eru dýrir og erfitt að forgangsraða í slíkar rannsóknir í þessu fjárhagsveseni sem Hafró er í. Þetta skip er miklu betra en það sem Hafró hefur upp á að bjóða, og jafnvel betra en nýi Bjarni verður.“

Leiðangrinum lauk á þriðjudag þegar norska skipið lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn. Hægt er að lesa um rannsóknirnar meðal annars vef Hafrannsóknastofnunar, hafogvatn.is, og á bloggsíðu leiðangursins sem þar er vísað í.