Theresa Henke, doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, hefur gert víðreist um landið í sumar, og gert sér far um að heimsækja sem flesta árósa allt í kringum landið. Þar hefur hún lagt net til flundruveiða, en flundran telst vera ágeng tegund hér við land. Sást hér fyrst við Ölfusárósa árið 1999.
„Verkefnið er að komast að því hvaðan flundran kemur, hvort hún kom hingað frá Færeyjum eða frá Mið-Evrópu. Við ætlum að erfðagreina sýni og bera það saman við gögn alls staðar að úr Evrópu,“ segir Theresa.
Uppruni flundrunar hér við land er nokkuð á huldu. Þegar hún fannst fyrst við Ölfusá þótti það geta bent til þess að hún hafi borist með kjölfestuvatni skipa, líklega frá Evrópu þar sem hún er víða útbreidd.
„Ári síðar fannst hún hins vegar á Suðausturlandi,“ segir Theresa, „og þar sem straumarnir fara í hina áttina umhverfis landið gengur það ekkert upp að hún hafi farið alla þá leið á aðeins einu ári án þess að veiðast. Nálægðin við Færeyjar vekur upp spurningar þannig að við ætlum að kanna uppruna hennar, og líka hvort hún hafi kannski komið frá fleiri en einum stað.“
Svör á næsta ári
Theresa gerir sér vonir um að einhver svör verði komin snemma á næsta ári. Þessar rannsóknir eru þó aðeins hluti af doktorsverkefninu. Annar þáttur er að kanna viðhorf stangveiðimanna og annarra til flundrunnar, og jafnframt hvað þeir kunna að vita um hegðun hennar.
„Flundran fer upp árnar, við viljum vita hvort hún hefur einhver áhrif á veiðarnar. Fyrstu niðurstöður benda til þess að viðhorfin séu frekar neikvæð.“
Margir óttist að flundran hafi neikvæð áhrif á laxfiska í ánum, en gera þurfi frekari rannsóknir til að fá það staðfest.
„Samkvæmt fræðunum hrygnir flundran í fullsöltu vatni en síðan berst ungviðið og lirfurnar aftur í hálfsalta vatnið. Hér á Íslandi vitum við samt ekki hvert þær fara.“
Theresa er frá Þýskalandi en þegar hún hafði klárað grunnám í háskóla varð Ísafjörður á endanum fyrir valinu þegar hún skráði sig í meistaranám.
Á slóðum skarkolans
Meistaraverkefni hennar við Háskólasetrið á Ísafirði snerist um að kanna hvort tilkoma flundrunnar geti haft áhrif á skarkola hér við land. Þessar tvær tegundir, flundra og skarkoli, eru skyldar og báðar hafast þær við á sendum botni, oft við árósa á fyrstu árum ævinnar.
Þar er vatnið ísalt, en þegar fiskarnir stækka halda skarkolarnir á haf út en flundran heldur sig við land og fer jafnvel upp í árnar. Skarkolinn í saltan sjó en flundran í ferskvatnið. Niðurstöður úr meistaraverkefninu benda til þess að mögulega geti flundran og skarkolinn verið í samkeppni um fæðu á uppeldisstöðvum.
„Við ætlum þess vegna líka á næsta ári að nota hljóðmerki til að sjá hvernig flundra og vonandi einnig laxfiskar hegða sér í árósum, komast að því hvort þau eru á sama svæði að einhverju leyti eða hvort þau halda sig frá hvort öðru.“
Theresa vill endilega heyra í fólki hafi það rekist á flundrur eða viti eitthvað um þær. Hún tekur við upplýsingum á netfangi sínu, [email protected]
„Það er partur af doktorsverkefninu að safna upplýsingum frá fólki en svo hef ég líka bara mikinn áhuga á þessu sjálf.“