Gunnlaugur Sighvatsson hjá EGG ráðgjöf hefur fengið þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til að gera fýsileikamat fyrir krabbavinnslu á Hólmavík. Gunnlaugur segir að skoða eigi fýsileika krabbavinnslunnar út frá fjárfestingu sem til þurfi, afurðaverði og því magni sem þurfi til að standa undir vinnslu.
„Við erum að skoða málið frá þeim enda en þetta snýr ekkert að veiðunum eða slíku. Það er annar handleggur hvernig gengur að veiða og hvað þarf að greiða fyrir hráefnið,“ segir Gunnlaugur.
Þekkt tegund til vinnslu
„Auðvitað er margt ókannað í hafinu; hvernig gengur að veiða krabbann og í hvaða magni hann er,“ segir Gunnlaugur og bendir á að grjótkrabbi sé þekkt tegund til vinnslu, til dæmis í Kanada. Sambærileg krabbategund sé í Evrópu, til dæmis við Noreg og víðar. Því megi segja að krabbinn sé beggja vegna Atlantshafsins.
Nú segir Gunnlaugur að afla þurfi upplýsinga um markaði, vinnsluaðferðir, verð á tækjum og öðru slíku. „Þannig að ég ætla að vinna málið út frá þeim enda,“ segir hann.
Hólmavík er ágætlega staðsett með tilliti til nokkuð margra veiðisvæða. „Bærinn er náttúrlega við Húnaflóann og það er stutt yfir í Ísafjarðardjúp og Breiðafjörð þar sem mikil hefð er fyrir veiðum á botntegundum,“ segir Gunnlaugur.
Aðrar tegundir víkja fyrir grjótkrabba
„Ég sjálfur tók þátt í tilraunaveiðum á þessum krabba fyrir nokkrum árum hjá Fisk Seafood. Við fengum gildrur að utan og mann sem var vanur veiðunum,“ segir Gunnlaugur.
Grjótkrabbi hefur frá því að hans varð fyrst vart hér við land árið 2006 verið að sækja í sig veðrið. Talið er að lirfur grjótkrabba hafi borist hingað með kjölfestuvatni skipa.
Grjótkrabbinn er ágengur og Gunnlaugur segir aðrar krabbategundir víkja fyrir honum. „Hann gengur yfir svæðin og maður myndi telja að það væru ágætis búsetuskilyrði fyrir hann hér við land,“ segir hann.
Fellur vel inn í stöðuna á Hólmavík
Gunnlaugur kveðst áður hafa verið starfandi á Hólmavík til margra ára. Eftir að styrkumsókn hans vegna krabbavinnslunnar var samþykkt í lok maí var tilkynnt um endalok rækjuvinnslu Hólmadrangs sem verið hefur á Hólmavík í næstum sex áratugi. Þar missti 21 starfsmaður lífsviðurværi sitt á einu bretti.
Að sögn Gunnlaugs hefur hann í kjölfar tilkynningarinnar um lokun Hólmadrangs sinnt ákveðnum verkefnum sem tengist því.
„Ég hef þannig komið þarna að atvinnumálum og krabbaverkefnið fellur bara vel inn í þá stöðu sem nú er komin upp,“ segir Gunnlaugur Sighvatsson en ítrekar að málið sé allt á frumstigi. „Nú á ég eftir að leggjast í smá skoðun.“