Hafrannsóknastofnun og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. vinna að rannsóknum á stofnstærð ljósátu í Ísafjarðardjúpi. Rannsóknirnar hafa verið styrktar af AVS-sjóðnum, að því er fram kemur á vef
bb.is
. Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri HG, segir að fyrirtækið hafi lagt til bátinn Val ÍS í rannsóknirnar. „Það er verið að reyna að nálgast stofnstærðarmat ljósátunnar með stofnstærðarmælingum og hvort að mögulegt sé að nýta þennan stofn,“ segir Kristján. Ljósátan yrði fyrst og fremst nýtt til manneldis.
„Í Asíu eru þekktar þurrkaðar afurðir úr ljósátu og það eru þær sem við erum að horfa til. Við erum með væntingar um að stofninn sé nógu stór til að það sé hægt að gera út einn bát hluta úr ári á ljósátu. En það vantar fleiri rannsóknir og við erum með aðra umsókn á hjá AVS-sjóðnum. Það er búið að fara í nokkra leiðangra sem ganga út á að sannreyna aðferðafræðina við að mæla stofninn,“ segir Kristján.
© Edwin Roald Rögnvaldsson (VB Mynd/Edwin)
Niðurstöður rannsóknanna eru að áætlaður árlegur meðallífsmassi er 25 þúsund tonn af ljósátu á athugunarsvæðinu, sem er fyrst og fremst Állinn inn undir Kaldalón.