Brimberg ehf. á Seyðisfirði vinnur nú að skemmtilegu tilraunaverkefni sem er framleiðsla á fiskisósu í samstarfi við Gullberg ehf., Síldarvinnsluna hf. og Matís ohf., að því er fram kemur í Fiskifréttum.
Vinna við verkefnið hófst í október með þátttöku starfsmanna Matís og japansks sérfræðings. Fiskisósa er einsleitur dökkur og tær vökvi sem hefur verið framleidd með gerjun á smáum uppsjávartegundum eins og sardínum og ansjósum. Hráefni sem notað er í tilraunavinnsluna á Seyðisfirði er makríll og síld fyrir utan ýmsar aukaafurðir svo sem ýsuroð, slóg úr þorski, marning o.fl.
Prófaðar eru nýjar aðferðir við gerð fiskisósu sem japönsku samstarfaðilarnir hafa þróað. Salti er bætt í hráefnið á hefðbundinn hátt en til viðbótar eru notaðir hvatar sem flýta gerjuninni. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir á fyrrihluta næsta árs.
Fiskisósa er mest notuð við matargerð í SA-Asíu og er hluti af daglegri fæðu íbúa þess heimshluta. Á sumum stöðum er fiskisósa aðalprótíngjafinn þar sem uppistaða fæðunnar eru hrísgrjón. Árið 2005 nam framleiðsla fiskisósu í heiminum um milljónum tonna.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.