Stjórnvöld í Kanada vinna nú hörðum höndum að því að vinna markaði fyrir selaafurðir í Kína. Með því ætla þeir að gefa Evrópusambandinu langt nef en sambandið bannaði innflutning á selaafurðum til ESB-ríkja á síðasta ári.

Fatnaður úr selskinni frá Kanada var sýndur á virtri tískusýningu í Beijing í Kína nýlega við góðar undirtektir. Sýningarstúlkurnar gátu einnig gengið um götur borgarinnar óáreittar klæddar pelsum úr selskinni. Hefði sýningin verið haldin í evrópskri borg er nær öruggt að skipulögð hefðu verið hávær mótmæli fyrir utan.

Tískusýningin var liður í mikilli kynningarherferð fyrir selaafurðir. Kína kaupir nú þegar selalýsi og selskinn frá Kanada og nú biðla Kanadamenn til Kínverja um að þeir kaupi selkjötið einnig. Kínverjar eru mjög hrifnir af selskinninu en þar í landi er ekki hefð fyrir selkjötsáti. Kanadamenn eru bjartsýnir á að þeir fái leyfi til að selja Kínverjum selkjöt innan tíðar og að kjötið muni falla þeim vel í geð.

Um 15.500 Kanadabúar hafa leyfi til selveiða. Veiðisvæðin eru tvö; annað við Norðurheimskautið þar sem Inuitar stunda veiðar og hitt, sem er miklu stærra, við St. Lawrenceflóann.

Selaiðnaðurinn í Kanada veltir um 13 milljónum dollara á ári (1,6 milljarði ísl. kr.) og þar af eru fluttar út selaafurðir fyrir um 10 milljónir dollara. Kanadamenn flytja selalýsi og fitu til Kína fyrir um 1,1 milljón dollara fyrir utan viðskipti með vörur úr selskinni.

Heimild: thestar.com