Kanadíska ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 62 milljónum dollara (um 7,3 milljörðum ISK) til uppbyggingar á fiskihöfnum í landinu, að því er fram kemur í frétt á fishupdate.com.

Fjárveitingin er sögð vera til að tryggja lífsviðurværi fiskimanna. Hæsti styrkurinn, 16,2 milljónir dollara, kemur í hlut Nýfundnalands og Labrador. Nova Scotia fær um 10 milljónir. Á Kyrrahafsströndinni fær Breska Kólumbía tæpar 8 milljónir.

Þessi fjárveiting kemur í kjölfar fyrri skuldbindingar ríkisstjórnarinnar um að setja 450 milljónir dollara (um 53 milljarða ISK) á fimm ára tímabili, 2013 til 2018, í verkefni til stuðnings við hafnarstarfsemi lítilla fyrirtækja.

Fiskveiðar í Kanada eru mikilvæg atvinnugrein og skapa um 100 þúsund störf. Því til viðbótar er fjöldi starfa í fiskvinnslu.

Árið 2011 var aflaverðmæti fiskiskipa Atlantshafsmegin í Kanada um 1,8 milljarðar dollara (214 milljarðar ISK). Verðmætustu fisktegundirnar eru humar, snjókrabbi, rækja, hörpudiskur og grálúða. Aflaverðmæti Kyrrahafsmegin er 278 milljónir dollara (33 milljarðar ISK) en þar eru villtur lax og lúða verðmætustu tegundirnar.