Veiðiheimildir á snjókrabba í St. Lawrence-flóa í Kanada hafa verið skornar harkalega niður á þessu ári vegna friðunaraðgerða stjórnvalda, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Heildarkvótinn hefur verið skorinn niður úr 20.400 tonnum 2009 niður í 7.700 tonn á vertíðinni í ár. Sjómenn höfðu búið sig undir einhvern samdrátt veiða en engan grunaði að veiðiheimildirnar yrðu skornar niður um 63% eins og raunin varð á.

Þetta þýðir að nær allir sjómenn í sjávarútvegshéruðum í austurhluta Kanada bera skarðan hlut frá borði og sum sjávarútvegsfyrirtæki, sem treysta mest á veiðar og vinnslu snjókrabba, munu lenda í verulegum rekstrarvanda.