Útgerðarfélagið Kambur ehf. í Hafnarfirði fékk nú á dögunum afhentan nýjan Cleopatra 38 bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni stendur Hinrik Kristjánsson en Ingimar Finnbjörnsson verður skipstjóri.
Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Steinunn HF-108. Hann er 15 brúttótonn að stærð og er í krókaaflamarkskerfinu. Aðalvélin er af gerðinni Volvo Penta D12 650hp tengd ZF gír. Siglingatæki eru af gerðinni Furuno. Báturinn er einnig með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans.
Báturinn er útbúinn til línuveiða. Línuspil og færaspil er frá Beiti. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.
Rými er fyrir 12 stk. 660 lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.