Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir á næstu ráðstefnu vettvangsins. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun.
Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða. Einstaklingar geta sent inn eigin hugmyndir og /eða tilnefnt hugmyndir annarra í umboði þeirra. Allar hugmyndir þurfa að uppfylla þau skilyrði að vera framúrstefnulegar en jafnframt raunhæfar.
Að sögn Guðrúnar Ólafsdóttur, sem situr í matsnefnd sem fjalla mun um þær tillögur sem berast, er fremur verið að kalla eftir hugmyndum og nýrri hugsun úr grasrótinni en hefðbundnum tæknilausnum sem sótt er um styrki fyrir í rannsóknasjóði. Hugmyndin þarf ekki endilega að vera ný afurð, hún getur allt eins verið átak, samstarf eða hvað annað sem er atvinnugreininni til framdráttar. Allt sem tengist virðiskeðjunni og lýtur að nýtingu auðlindarinnar kemur til greina.
Úrslit í þessari samkeppni verða kynnt á Sjávarútvegsráðstefnunni 13.-14. október n.k. Verðlaun fyrir bestu hugmyndina eru 400 þúsund krónur og þeim fylgir verðlaunagripur.
Frestur til að skila inn tillögum er 16. maí 2011. Nánari upplýsingar eru á vef Sjávarútvegsráðstefnunnar ( www.sjavarutvegsradstefnan.is ).