Yfirborð sjávar í Arnarfirði tók á sig grænleitan blæ í byrjun september 2022. Þar sem árstíð og staðsetningar eru óvenjulegar fyrir plöntusvifsblóma af því tagi sem stundum sést á gervihnattamyndum, óskaði Hafrannsóknastofnun eftir yfirborðssýnum úr sjó og voru sýnin skoðuð í smásjá dagana 5. 6. og 7. september. Þarna hefur myndast þéttur blómi af agnarsmáum (5-7 µm) kalksvifþörungi sem nefnist Emiliania huxleyi.

Á gervihnattamyndum má sjá að þörungablóminn, sem fyrst sást frá Bíldudal, hefur á nokkrum dögum breiðst út og yfir í Dýrafjörð og samskonar blómi hafist í Hestfirði. Í Hestfirði varð blómans vart nokkrum dögum síðar. Þann 9. september mældust < 500.000 frumur/L. Styrkurinn nær ekki þeim viðmiðum til að tala um blóma þessa svifþörunga, 1 milljón frumur/L. Hafrannsóknastofnun telur að frumufjöldinn í sýninu hafi verið lægri en vænta mátti vegna þess að sýnið var tekið við ströndina og endurspeglar því ekki réttan styrk blómans í firðinum.

Bindur kolefni og losar CO2

Blómar svifþörunga verða þegar skilyrði eru góð fyrir viðkomandi tegund, en þegar líða fer á blóma Emiliania huxleyi fara að sjást mjólkurhvítar slæður á yfirborðinu sem er afleiðing þess að frumurnar losa sig stöðugt við kalkflögur sem hylja yfirborð þeirra. Blómi af þessu tagi hefur veruleg áhrif á bæði kalsíum- og kolefnishringrás sjávar. Þörungurinn bindur kalk úr uppleystu kalsíum og bíkarbónati. Frumurnar sökkva til botns og kalkflögurnar mynda að lokum kalkrík setlög á hafsbotni. Eins og annað plöntusvif nýtir Emiliania huxleyi koltvísýring úr andrúmsloftinu til ljóstillífunar og getur tegundin bundið umtalsvert magn kolefnis. En þar sem framleiðsla kalsíumkarbónats losar einnig koltvísýring er það háð vaxtarskilyrðum hvort kolefnisbindingin eða losun koltvísýringsins er hlutfallslega meiri hjá tegundinni.

Engar heimildir liggja fyrir hjá Hafrannsóknastofnun um að haustblómi af þessu tagi hafi áður hafist í íslenskum firði. Algengt er að flekkir af Emiliania huxleyi sjáist á gervihnattamyndum, ef marka má ofangreind litbrigði, og nær árlega á hafsvæðinu suður og suðvestur af landinu. Undanfarin ár hafa slíkir flekkir verið að berast vestur um og norður fyrir landið fram á haustmánuði. Stöku sinnum hafa þeir blómar dreifst um hafsvæðið norðan landsins, en ekki verður séð að umræddur blómi í fjörðunum fyrir vestan sé afleiðing af slíkri framvindu.

Lágur styrkur næringarefna, sér í lagi kísils, leiðir til að aðrar tegundir geta síður þrifist. Ef það er nægt köfnunarefni til staðar og stilla á sólríkum dögum eins og skilyrðin gætu hafa verið á Vestfjörðum, getur þörungurinn leitað upp í yfirborðið og fært sér í nyt hagstætt umhverfi.

Kalksvifþörungar eru frumframleiðendur og alla jafnan skaðlausir fyrir aðrar lífverur í umhverfinu. Ekki er ástæða til að ætla að blóminn sé skaðlegur umhverfinu né fiskeldinu á svæðinu.

Þau skilyrði sem hafa stuðlað að blóma Emiliania huxleyi við landið eru innstreymi heits og salts Atlanssjávar, sólríkir og lygnir dagar og lágur styrkur næringarefna