Í undirbúningi er að stofna ferðaþjónustufyrirtæki á Vestfjörðum þar sem ferðamönnum verður boðið upp á köfunarferðir þar sem leitað verður að ýmsu hráefni sem nota má í ljúffenga rétti að köfun lokinni. Þetta kemur fram á vef Matís.

Á hafsbotni leynist ýmis fjársjóður og fjölskrúðugt lífriki. Margt ætilegt er þar að finna en sjaldgæft er að fólk beinlínis tíni upp það sem það sér á botninum og leggi sér til munns. Þetta er kjarninn í undirbúningsverkefninu „Frá köfun til maga” (e. “Gourmet Diving”) sem styrkt er af AVS og sem Matís hefur unnið að í sumar í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, Núp ehf., Dive.is, Alan Deverell og síðast en ekki síst Sveinbjörn Hjálmarsson, kafara.

„Hugmyndin er sú að fara með ferðamenn í köfunarferðir á Vestfjörðum og leyfa þeim að tína upp skeljar og fleira sem hægt er að borða. Þeir myndu síðan fá matinn eldaðan af kokki frá Hótel Núpi, annaðhvort í fjöruborðinu þegar þeir koma upp úr sjóum eða þá á hótelinu. Maturinn yrði eldaður fyrir framan þá svo þeir fá að fylgjast með öllu ferlinu,“ segir Sveinbjörn í frétt á vef Matís og bætir við að á sumum stöðum sé eitthvað af flatfisk sem gott er að fanga með höndunum. Því geti ferðamennirnir hæglega orðið sér úti um stórar og góðar máltíðir. Sjá nánar http://www.matis.is/um-matis/frettir/nr/3481