Norskir sérfræðingar hafa þróað nýjar afurðir úr hinni hefðbundnu Norðursjávarsíld og hafa þær fengið samheitið jómfrúarsíld.

Um er að ræða léttsöltuð flök með minna saltinnihaldi og mildara bragði en hin hefðbunda afurð og er ætlað að höfða meira til yngra fólks.

Norðursjávarsíldin er veidd í Norðursjó, Skagerak og Kattegat og er nýtt í margs konar afurðir en hin hollenska matjés-síld er þekktasta varan. Holland hefur verið mikilvægur markaður fyrir matjés-síldina en á seinni árum hefur eftirspurnin staðnað og neyslan verið minni en framleiðslan. Þetta hefur leitt til þess að birgðir hafa safnast upp á sama tíma og síldarstofninn í Norðursjó hefur verið að stækka og styrkjast.

Nafnið jómfrúarsíld dregur nafn sitt í raun af hollensku matjés-síldinni því matjes kemur af orðinu „maagd“ sem þýðir jómfrú á hollensku.

Sjá nánar á vefnum forskning.no