Samkvæmt venju hófst verkun á hinni geysivinsælu jólasíld Síldarvinnslunnar í septembermánuði sl. Fjallað er um þennan árvissa viðburð á heimasíðu Síldarvinnslunnar og rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson rekstrarstjóra, Odd Einarsson yfirverkstjóra og Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóra til að fræðast um framleiðslu síldarinnar sem svo margir bíða spenntir eftir.

Jólasíld Síldarvinnslunnar hefur verið framleidd í áratugi og er farið eftir strangri uppskrift við framleiðsluna. Uppskriftin er leyndarmál en engu að síður er unnt að greina frá því hvernig framleiðslan fer fram í megindráttum. Þeir sem lengst stýrðu framleiðslunni voru Haraldur Jörgensen og Jón Gunnar Sigurjónsson og byggir núverandi framleiðsla meðal annars á áratuga langri reynslu þeirra.

Jólasíldin er óvenjufalleg þetta árið.
Jólasíldin er óvenjufalleg þetta árið.

Síldin þarf að vera norsk-íslensk

Þegar rætt er um framleiðsluna við þá þremenninga í fiskiðjuverinu kemur fram að lögð er ofuráhersla á nokkra þætti þegar framleiðslan fer fram. Í fyrsta lagi þarf síldin að vera norsk-íslensk gæðasíld sem er nýveidd og flutt vel kæld að landi. Í öðru lagi þarf að flaka síldina strax og hún berst að landi og skera hana niður í hæfilega bita. Í þriðja lagi þurfa bitarnir að liggja í saltpækli í körum í ákveðinn tíma og að því loknu í edikslegi. Í fjórða lagi eru síldarbitarnir settir í tunnur með edikslegi og þar liggja þeir þar til þeim er pakkað í fötur með sykurlegi ásamt grænmeti og viðeigandi kryddjurtum sem eiga sinn þátt í að skapa hið unaðslega og eftirsótta bragð.

Hægt að panta á höfuðborgarsvæðið

Að undanförnu hefur starfsfólk fiskiðjuversins unnið við að setja síldina í fötur og þá ríkir ávallt gleði og góð stemmning enda fær fólk gjarnan að heyra að það sé að vinna við að framleiða bestu síld í heimi.

Jólasíldin er framleidd fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar og þá sem tengjast fyrirtækinu en Hosurnar, líknarfélag starfsmanna Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, fær einnig síld í ákveðnu magni sem er seld til styrktar sjúkrahúsinu.

Jólasíld SVN hefur verið framleidd í áratugi.
Jólasíld SVN hefur verið framleidd í áratugi.

Hosurnar hafa verið að selja síld á Austurlandi og einnig norður í land. Hægt er að panta síld á [email protected]. Þá verður Hosumarkaðurinn í Neskaupstað dagana 28. og 29. nóvember og þar verður unnt að kaupa síld. Á höfuðborgarsvæðinu verður síldin, sem pöntuð hefur verið, afhent í Fornubúðum í Hafnarfirði 3. desember næstkomandi á milli klukkan 16 og 18. Það er Olga Hrund Sverrisdóttir sem annast afhendingu síldarinnar þar. Nú fer hver að verða síðastur á höfuðborgarsvæðinu að panta sér síld.