Hjá mörgum vantar eitthvað upp á jólin ef ekki koma út frásagnir um sjóraunir, giftusamlegar bjarganir og hetjur hafsins. Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur bregst ekki lesendum sínum frekar en áður og út er komin bókin Þrútið var loft og þungur sjór – frásagnir frá fyrri tíð. Steinar er einna kunnastur fyrir stórvirki sitt, Þrautgóðir á raunastund, sem kom út í nítján bindum og naut fádæma vinsælda meðal þjóðarinnar. Í nýju bókinni hefur hann tekið saman frásagnir af hetjum hafsins. Þar segir frá skipsbrotsmönnum hringinn í kringum landið fyrr á tíð, hörmulegum mannsköðum, gjörningaveðrum, feigð og baráttu við landhelgisbrjóta. Þá fjallar Steinar ítarlega t.a.m. um hákarlaveiðar sem stundaðar voru við erfiðar aðstæður á vanbúnum bátum í illum veðrum.
Bókin er byggð upp á tíu aðalköflum og fjölda undirkafla. Í kaflanum Örlagadagur í Önundarfirði segir frá hörmulegum örlögum fjölda manns sem sóttu sjóinn aðallega á sex- og áttæringum í maí 1812. Alls höfðu tólf bátar frá Önundarfirði haldið til sjós þegar skyndilega skall á „él sem var svo dimmt að skuggsýnt varð og landsýn hvarf með öllu“. „Fljótt varð ljóst að manntjón hafði orðið í illviðrinu. Þegar skip það sem Jón Guðmundsson á Kirkjubóli var formaður á náði landi í Arnarfirði höfðu menn því frá að segja að nokkru eftir að óveðrið skall á hefðu þeir siglt fram á skip sem var á hvolfi. Ekki sáu þeir hvaða skip var þarna um að ræða. Litlu síðar sigldu þeir aftur fram á skip sem hafði hvolft og voru þrír menn á kili þess sem hrópuðu af öllum lífs og sálarkröftum á hjálp. Engin tök voru á að koma þeim til bjargar þar sem Jón og áhöfn hans gátu það eitt að reyna að halda skipi sínu á réttum kili. Bar það við í þriðja sinn að menn komu auga á skip sem hafði hlekkst á. Sáu þeir árar á floti og menn í sjónum sem voru að reyna að halda sér uppi. Ekki fremur en áður voru tök á að bjarga þeim en mjög gekk það nærri Jóni og áhöfn hans að heyra hljóðin í mönnunum en geta ekkert gert þeim til hjálpar. Áttæringur sem Jón Jónsson bóndi á Ytri-Veðraá var formaður á komst til lands í Arnarfirði svo og bátur sem Sveinn Þorleifsson á Þorfinnsstöðum var formaður á. Var það minnsti báturinn sem lenti í óveðrinu, aðeins fimm manna far. Var hann notaður sem staðarferja í Holti og var í eigu Ásgeirs Jónssonar. Á uppsiglingunni kom Sveinn að skipi sem misst hafði segl sín og var við það að farast. Tókst honum að bjarga mönnum af skipinu en heimildum ber ekki saman um hvort þeir voru fjórir eða sex. Þótti það frækilegt afrek og bera vitni um hve góður stjórnandi Sveinn var, en hann var maður lágvaxinn og þótti ekki mikill fyrir mann að sjá, en einstaklega lipur og laginn formaður. Var hann síðar heiðraður fyrir björgunarafrekið og fékk tólf ríkisdali í silfri frá konunginum.“
Bókin er skrýdd fjölda mynda og er 288 blaðsíður með myndaskrá. Útgefandi er Veröld.