,,Miðað við forsendur um afrán langreyðar á loðnu og afrán hrefnu á þorski, ýsu og loðnu væri hægt að stækka þessa þrjá nytjastofna umtalsvert með því að veiða 150 langreyðar og 150 hrefnur á hverju ári,” segir í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega hagkvæmni þess að veiða hvali.
,,Til lengri tíma litið gæti verið hægt að veiða um 2.200 tonnum meira af þorski á hverju ári, 4.900 tonn af ýsu og 13.800 tonn af loðnu. Núvirtur hagnaður af þessum aukna afla gæti numið um 12,1 milljarði kr. Virðisauki af þessum veiðum gæti þó orðið mun meiri,” segir í skýrslunni.
Ennfremur segir í skýrslunni: ,,Ekki er sjá að sú ákvörðun að hefja hvalveiðar að nýju hafi dregið úr ásókn í hvalaskoðun. Þvert á móti virðist reynsla undanfarinna ára sýna að hægt er bæði að veiða hvali og skoða án þess að hvalaskoðendum þurfi að fækka.”
Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var unnin að beiðni Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.
Sjá nánar á vef sjávarútvegsráðuneytisins , HÉR